Gamla þjóðtrúin um sumarveðrið ekki gömul

Mynd með færslu
 Mynd:

Gamla þjóðtrúin um sumarveðrið ekki gömul

24.04.2014 - 16:47
Gamla þjóðtrúin um að ef frjósi saman sumar og vetur þýði það gott sumar er kannski ekki svo gömul eftir allt saman. Jóna Steinunn Sveinsdóttir sem búsett er í Holtum telur að það sé seinni tíma skýring. Ef sumar og vetur frjósa saman viti það hins vegar á að nytin í dýrunum verði betri.

Á hverju ári síðasta vetrardag og á sumardaginn fyrsta er talað um gömlu þjóðtrúna að það viti á gott sumarveður ef hiti fer undir frostmark á miðnætti aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Veðurfræðingar gefa nú lítið fyrir þá skýringu. 

Jóna Steinunn Sveinsdóttir sem alla sína tíð hefur búið í Holtum kannast ekki við að þetta sé gömul þjóðtrú. En ef vetur og sumar frysi saman þýddi það að nytin yrði betri.

„Það átti að verða kjarngóð nytin úr fénu hvort sem það var sauðfé eða kýr að þá yrði kjarngóður gróðurinn. Ég hef þetta frá afa mínum sem fæddur var 1888 og fleira góðu fólki sem ég ólst upp með.“

Jóna Steinunn segir að gamla fólkið hafi trúað á alla veðurdaga og þjóðtrú tengda þeim. Það hefur fremur trúað þeim en veðurfregnunum.

Miðað við veðrið í nótt og í dag spáir hún því að sumarið verði þokkalegt. 

„Ég myndi nú spá því að það yrði nú nokkuð gott. Það er nú ekki mjög bjart hérna núna en ég hugsa að það myndi verða svona þokkalegt.“

Hún segir að miðað við þjóðtrúna um nytina og veðrið síðasta sólarhring að þá sé hún ekki viss um það að nytin í kúnum verði mikil.