Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gamla Blöndubrúin fær nýtt hlutverk

22.06.2018 - 21:18
Gamla brúin, sem áður fyrr var þjóðvegur eitt yfir Blöndu, fær bráðum nýtt hlutverk. Brúin, sem er elsta samgöngumannvirki landsins, verður göngubrú yfir í fólkvang Blönduósbúa í Hrútey.

Búin var mikið mannvirki og gríðarleg samgöngubót þegar Blanda var brúuð við Blönduós fyrir 120 árum. En þessi gamla brú er líka víðförul. Þegar henni var skipt út fyrir nýja árið 1962 var hún flutt fram í Svartárdal og brúaði þar Svartá í tæp 40 ár. Þá var hún aftur flutt út á Blönduós því heimamenn þar vilja varðveita brúna og finna henni eitt hlutverkið enn. 

Verður göngubrú út í Hrútey

Gamla Blöndubrúin var vígð árið 1897 og er orðin heldur óhrjáleg á að líta. En það stendur til bóta. „Já það stendur sannarlega til bóta,“ segir Ágúst Þór Bragason, umsjónarmaður tæknideildar Blönduósbæjar. „Við ætlum að gera upp þessa gömlu Blöndubrú og gera hana göngubrú út í Hrútey og sem er fólkvangur okkar hérna við Blönduós.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Brúin verður gerð að göngubrú út í Hrútey

Þriggja ára verkefni

Og þá brúar þetta gamla samgöngumannvirki Blöndu á ný. En í þetta sinn verður umferðin gangandi. Áætlað er að verkið taki þrjú ár og kosti samtals um 100 milljónir króna. Byggja þarf upp aðstöðu á árbakkanum, aðkomu að brúnni og hífa brúna á nýjar undirstöður yfir Blöndu út í Hrútey.

Blönduós byggðist í kringum þessa brú

„Verkefnið er metnaðarfullt og ég held að það sé brýnt að við finnum þessu hlutverk,“ segir Ágúst. „Hér byggðist Blönduós í kringum þessa brú. Og það gerði það að Blönduós er það sem það er í dag vegna þessa mannvirkis. Og við viljum varðveita hana í því hlutverki í framtíðinni.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV