
Gámar af laxi með áætlunarskipi frá Bíldudal
Draga úr ferðum flutningabíla
Siglingarnar hófust fyrir tilstilli samstarfssamnings Samskipa og Arnarlax. „Þetta lækkar hjá okkur flutningskostnað bæði á aðföngum og því sem við sendum og þetta minnkar líka álagið á þjóðvegunum, og þeir er nú ekki góðir,“ segir Tryggvi Bjarnason, framleiðslustjóri Arnarlax. Leið flutningabílanna liggur til dæmis um gamla malarvegi í Gufudalssveit og áfram til Reykjavíkur og Þorlákshafnar og þar til í haust var jafnvel keyrt alla leið á Seyðisfjörð til að koma vörum í skip. „Ef allt færi í bílum þá væru sennilega tíu bílar á ferðinni fyrir okkur í dag. En þeir eru fjórir með því að skipið er komið,“ segir Tryggvi.
Gámarnir gætu fjórfaldast á næstu árum
Önnur fyrirtæki nýta sér jafnframt flutningana. Þennan daginn eru sendir sjö gámar frá Arnarlaxi og þrír frá öðrum fyrirtækjum. Tryggvi segir að miðað sé við að gámarnir verði 10-15 á viku til að dæmið gangi upp. „Í vetur reiknum við með því að þetta verði 14-16 gámar á vikur og ef öll plön ganga eftir þá gætum við verið að fjórfalda það magn á næstu árum,“ segir Tryggvi.