Gaman ferðir hætta starfsemi vegna þrots WOW

11.04.2019 - 22:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Ferðaskrifstofan Gaman ferðir hefur hætt starfsemi og skilað inn ferðaskrifstofuleyfi sínu. WOW air átti 49 prósenta hlut í ferðaskrifstofunni. Það reyndist of dýrt að útvega flug með öðrum flugfélögum eftir fall flugfélagsins á dögunum.

Gaman ferðir voru stofnaðar árið 2012 og voru einnig í eigu Þórs Bærings Ólafssonar og Braga Hinriks Magnússonar. Starfsmennirnir voru 14 talsins. „Fall WOW var of mikið fyrir okkur. Við reyndum allt til að bjarga þessu en það tókst ekki,“ segir Þór. Eftir fall WOW air var reynt að finna flug með öðrum flugfélögum en það reyndist afar dýrt. Því var ákveðið að hætta rekstrinum áður en starfsfólk og viðskiptavinir yrðu fyrir fjárhagslegum skaða. 

Þór segir að allir viðskiptavinirnir séu tryggðir og geti fengið endurgreitt og mögulega farið í aðra ferð. Ferðamenn sem eru í útlöndum á vegum Gaman ferða þurfi ekki að örvænta því búið sé að greiða allt sem tengist þeim ferðum. Í næstu viku fer leiguvél til Tyrklands og er búið að greiða fyrir hana þannig að sú ferð verður farin. 

Gaman ferðir hafa boðið upp á ferðir í sólina og eins sérferðir, til dæmis á tónleika. Á vef ferðaskrifstofunnar er farþegum bent á að hafa samband við Ferðamálastofu. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi