Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gagnsemi lyfjanna ósönnuð

21.01.2016 - 17:56
Mynd: flickr / flickr
„Ég get hlustað á fólk, einbeitt mér og skipulagt mig í fyrsta skipti á ævinni.“ Þetta segir maður sem byrjaði að taka örvandi lyf við ADHD fyrir fjórum dögum. Í niðurstöðum úttektar virtrar rannsóknarmiðstöðvar á virkni lyfjanna kemur fram að ekki sé hægt að fullyrða að þau virki. Þá skorti rannsóknir á langtímaáhrifum þeirra á heilsu fólks.

 Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu fengu 3604 fullorðnir og 3072 börn ávísað örvandi metýlfenídatlyfi að minnsta kosti einu sinni árið 2014. Þrefalt fleiri en í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Fjórfalt fleiri en í Finnlandi. Fjallað var um málið í Speglinum á þriðjudag. Heilbrigðisráðherra talar um ofnotkun, hvergi á byggðu bóli sé meira notað af lyfinu en hér. Það sé brýnt að bregðast við. Hann vill að fólki með ADHD-greiningu verði í auknum mæli beint í sálfræðimeðferð eða markþjálfun.

„Mínir fagaðilar sem ég styðst við þegar við erum að ræða stefnumótun fullyrða að þessi leið sem við erum að feta okkur inn á hér gefi mjög góða raun.“

Uppfylli ekki væntingar

 

Þá vísaði heilbrigðisráðherra til nýlegrar úttektar Cochrane-rannsóknar-miðstöðvarinnar á gagnsemi metýlfenídatlyfja. „Þeirra niðurstöður voru þær að virkni þessa lyfs var ekki að uppfylla þær væntingar sem til þess voru gerðar og þessi niðurstaða hefur ekki hlotið þá athygli sem menn bjuggust við og gefur okkur kannski tilefni til þess að fara örlítið betur yfir þær niðurstöður sem þarna komu fram.“

Börn að leik.

Fyrsta kerfisbundna úttektin á gagnsemi lyfjanna

Úttekt Cochrane birtist í nóvember í fyrra og beindist að gagnsemi metýlfenídatlyfja við ADHD-einkennum hjá börnum og unglingum. Á vefsíðu miðstöðvarinnar segir að þetta sé fyrsta kerfisbundna úttektin sem unnin er á gagnsemi lyfjanna, þrátt fyrir að þau hafi verið notuð í meira en hálfa öld.

„Frekar lélegar rannsóknir“

Allar þær rannsóknir sem birtar hafa verið um virkni lyfjanna voru leitaðar uppi, 185 talsins. Niðurstöður flestra voru jákvæðar, lyfin voru sögð slá á einkenni raskanarinnar í mörgum tilfellum og bæta lífsgæði barna og unglinga sem það taka. Gagnrýni miðstöðvarinnar laut að gæðum rannsóknanna sjálfra, hver og ein þeirra var greind út frá sérstökum gæðalista yfir atriði sem eiga að einkenna rannsóknir.

„Útkoman er að þetta eru almennt bara frekar lélegar rannsóknir, þær uppfylla ekki skilyrði fyrir góðar rannsóknir. Sem dæmi má nefna að aukaverkunum eru gerð harla lítil skil í öllum þessum rannsóknum til dæmis er ekki talað um hættu á alvarlegum aukaverkunum nema í níu af þeim 185 sem eru með í þessari metaanalísu. Í rétt um helmingnum er talað eitthvað um aukaverkanir yfirhöfuð.“

Þetta segir Ingunn Björnsdóttir, dósent í félagslyfjafræði við Oslóarháskóla. Gagnrýni Cochrane laut meðal annars að því hvernig samanburðarrannsóknir á áhrifum metýlfenídats og lyfleysu á börn voru framkvæmdar, oft vissu þeir sem mátu áhrifin hvort barnið hafði tekið lyf eða lyfleysu. Höfundar úttektarinnar sögðust í ljósi þessa ekki geta fullyrt um hvort og hversu mikil áhrif lyfið hefði á ADHD-einkenni barna og unglinga, hegðun þeirra og lífsgæði. Þá væri óljóst hvaða hópum lyfið gagnaðist helst og hverjum það gagnaðist ekki.

Sálfræðimeðferð síður beitt hér en í nágrannalöndum

Ekkert var staðhæft um hvort lyfið virkaði vel eða ekki, einungis að óvissa ríkti um virkni þess vegna skorts á góðum rannsóknum. Ingunn segir þetta afar hrollvekjandi í ljósi þess hversu lengi lyfjunum hefur verið beitt.

„Það er gjarnan farið út í þetta strax á Íslandi, lyfjagjöf. Sálfræðimeðferð hefur lítið verið notuð og miklu minna en í nágrannalöndum sem við berum okkur saman við,“ segir hún. 

En gagnast sálfræðimeðferð jafnvel? 

„Hún gagnast að einhverju marki en það er ekki hægt að mæla áhrifin af sálfræðimeðferð á sama hátt og lyf eru prófuð, þannig að það er svolítið snúið að eiga við. Þegar upp er staðið er þetta í rauninni spurning um að sjá hvað gagnast börnunum.“

Læknar hvattir til að sýna aðgát

Cochrane-miðstöðin hvetur lækna til þess að sýna aðgát, vega og meta vel kosti og galla þess að ávísa lyfinu og fylgja þeim börnum sem fá því ávísað vel eftir. Ingunn tekur undir það, „Í kjölfar þessarar rannsóknar ættu læknar í hvert skipti sem þeir ávísa metýlfenídati við ADHD að íhuga hvort kostirnir við það eru meiri en gallarnir.“

Virknin hugsanlega minni en úttektin gefur til kynna

Magnús Jóhannsson, prófessor og læknir hjá Landlæknisembættinu, sagði í samtali við Vísi í desember að rannsóknin væri gott innlegg í umræðuna en að sennilega myndi lítið draga úr ávísunum lyfjanna hér á landi. Ingunn er forviða á því að rannsóknin hafi ekki vakið meiri viðbrögð hérlendis. Í fræðasamfélaginu séu rannsóknir Cochrane-miðstöðvarinnar taldar þær bestu yfir hvort lyf séu gagnleg eða ekki. Hún nefnir að hugsanlega sé virkni lyfjanna minni en úttektin gefur til kynna. Það sé ákveðin birtingarskekkja, jákvæðar niðurstöður sem sýna fram á virkni lyfja séu frekar birtar í fræðitímaritum en neikvæðar niðurstöður sem sýna ekki fram á virkni.

„Ég veit ekki hvort það hafa verið gerðar rannsóknir eða hversu margar rannsóknir hafa verið gerðar sem hafa sýnt fram á að ekki séu áhrif. Ég hef bara aðgang að því sem hefur verið birt en það eru til tölfræðipróf sem geta sýnt fram á hvort það séu líkur á að birtingarskekkja sé fyrir hendi, mér vitanlega hefur slíkt tölfræðipróf ekki verið gert.“

Tæpur helmingur rannsókna fjármagnaður af lyfjafyrirtækjum

Fjörutíu prósent rannsóknanna sem miðstöðin rýndi voru fjármagnaðar af lyfjafyrirtækjum en þær voru ekki aðskildar sérstaklega í úttektinni. Ingunn segir að höfundar úttektarinnar hafa verið gagnrýndir sökum þess. Sá sem setti fram gagnrýnina hefur, að sögn Ingunnar, unnið margar rannsóknir fyrir lyfjafyrirtæki og vill meina að þær séu vandaðri en aðrar. Ingunn setur spurningarmerki við það.

Þunglyndi, mæði, vaxtarskerðing, hjartsláttartruflanir

Hækkaður blóðþrýstingur, hjartsláttartruflanir, tilfinningalegur óstöðugleiki, kvíði, þunglyndi, skert kynhvöt, skjálfti, sundl, mæði, kviðverkir og vaxtarskerðing við langvarandi notkun hjá börnum. Svona hljóðar listinn yfir algengar aukaverkanir metýlfenídatslyfjanna Concerta og Rítalíns Uno. Ekki er mælt með notkun lyfsins á meðgöngu en greint hefur verið frá eiturverkunum á hjartastarfsemi og öndun nýbura. 

Óljóst hver langtímaáhrif á hjarta- og æðakerfi barna eru

 Áður en metýlfenídatlyfjum er ávísað þarf að skrá nákvæmlega sjúkrasögu sjúklings, ef sjúklingur hefur einkenni sem benda til hjartasjúkdóma þarf að rannsaka þau sérstaklega. Greiningar á gögnum úr klínískum rannsóknum á notkun metýlfenídats hjá börnum og unglingum með ADHD sýna að algengt getur verið að blóðþrýstingur hækki hjá þeim. Klínískar afleiðingar þess á hjarta og æðakerfi þeirra til lengri og skemmri tíma eru ekki þekktar og ekki hægt að útiloka möguleika á fylgikvillum af völdum þeirra, einkum ef meðferð er haldið áfram fram eftir fullorðinsaldri.

Tíðni nokkurra alvarlegra aukaverkana er óþekkt, svo sem alfloga (grand mal), ónota fyrir brjósti, getuleysis og þess að sjúklingur ánetjist lyfjunum en það er einmitt sú aukaverkun sem komið hefur hvað mestu óorði á lyfin. Talið er að 200-300 manns misnoti þau hér að staðaldri, það er sprauti þeim í æð. Hlutfallið er hærra en víða annars staðar. Þetta er önnur ástæðan fyrir því að Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, vill draga úr notkun lyfjanna. Hin er sú að á Íslandi er lyfjunum ávísað í meiri mæli en í nágrannalöndunum. 

Ekki verulega alvarlegar aukaverkanir

Í úttekt Cochrane segir að gögnin sem fyrir liggja bendi til þess að aukaverkanir lyfjanna séu ekki verulega alvarlegar eða lífshættulegar, séu þau notuð í sex mánuði eða skemur. Hins vegar gæti notkunin valdið svefnvandamálum eða dregið úr matarlyst. Fram kemur að frekari rannsókna á langtímaáhrifum metýlfenídats á heilsu fólks sé þörf.

Það verður heiðskírt í höfðinu á þeim

Þótt Cochrane hafi ekki tekist að sanna með óyggjandi hætti að lyfin virki þá eru margir þeirra sem taka þau fullvissir um það. Það verður heiðskírt í höfðinu á þeim, ef svo má segja.

Börnin greinast, foreldrar fylgja

Notkun methýlfenídats við einkennum athyglisbrests á sér um sextíu ára langa sögu hér á landi en hefur aukist verulega síðastliðin ár, einkum meðal fullorðinna. Margir hafa leitað sér greiningar í kjölfar þess að börn þeirra voru greind en talið er að erfðir geti skýrt einkenni ADHD í 75-95% tilfella. Þröstur Guðlaugsson, ljósmyndari, er einn þeirra. Hann fór í greiningu hjá ADHD-teymi Landspítalans, þar var hann greindur með þunglyndi.

„Ég er búin að lesa mér mjög mikið til um ADHD og þunglyndi og mig langaði bara að snúa þessu við, hvort það væri ekki möguleiki að þunglyndið væri afleiðing ADHD en ekki öfugt.“

Hann leitaði því til sjálfstætt starfandi sálfræðings sem greindi hann með röskunina. Dagurinn í dag er fjórði dagurinn sem hann tekur Concerta, hann segir það þegar hafa breytt lífi hans.

„Ég upplifi það þannig að ég skipti nánast um persónu, ef svo má segja. Ég fann strax fyrsta daginn mikla breytingu varðandi fókus á hluti, að geta hlustað á fólk betur og meðtekið það sem það er að segja. Áður fór þetta svona frekar í gegn og ég þurfti alltaf að melta það vel eftir samtalið. Ég á miklu betra með að skipuleggja mig, ég get skipulagt það sem ég er að gera nánast í fyrsta skipti á ævinni.“

Þröstur segist ekki hafa fundið fyrir neinum aukaverkunum enn. Hann hyggst á næstunni ráðast í ljósmyndaverkefni tengt ADHD. Markmiðið er að eyða fordómum gegn röskuninni. Nánar má lesa um reynslu hans hér. 

Þórgunnur Ársælsdóttir, formaður geðlæknafélags Íslands fullyrðir að lyfin virki og séu rannsökuð í þaula. Rætt verður við hana og framkvæmdastjóra ADHD-samtakanna í Spegli morgundagsins.