Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Gagnrýnir vinnubrögð ríkisins í máli Erlu

06.06.2015 - 13:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðuneytið hafnaði því að styðja málarekstur blaðamanns fyrir Mannréttindadómstól Evrópu þar sem engir peningar væru til í ráðuneytinu. Á sama tíma var tæpri milljón varið í lögfræðiráðgjöf vegna Lekamálsins. Lögmaður furðar sig á málatilbúnaði ráðuneytisins fyrir Mannréttindadómstólnum.

Innanríkisráðuneytið teygði sig mjög langt í rökstuðningi sínum fyrir því að meiðyrðadómar gegn Erlu Hlynsdóttur, stæðust, þegar málin voru rekin fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Þettta sagði Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Erlu, í Vikulokunum á Rás 1. Mannréttindadómstóllinn hafi ítrekað furðað sig á röksemdafærslum íslenska ríkisins í málinu og gert við þær athugasemdir.

Vændi á Íslandi einkamál?

Því hafi meðal annars haldið fram að umfjöllun um mögulega vændisstarfsemi á nektardansstöðum, ætti ekki erindi við almenning, í greinargerðum íslenska ríkisins til dómsins. Mannréttindadómstóllinn taldi þau rök alls ekki eiga við rök að styðjast enda væri umfjöllun um slík ítrekað efni fjölmiðla um alla Evrópu. 

Innanríkisráðuneytið hafi auk þess sett fram rök fyrir niðurstöðum Hæstaréttar sem hvergi hafi verið að finna í dómunum sjálfum.

"Þar verður ekki betur séð en ráðuneytið sé að taka að sér að rökstyðja dómana upp á nýtt fyrir Hæstarétt," sagði Gunnar í Vikulokunum.

Þetta hafi til dæmis verið tilfellið þegar Mannréttindadómstóllinn hafi óskað svara við því hvernig Hæstiréttur hefði í úrskurðum sínum haft tjáningarfrelsisákvæði Mannréttindasáttmálans til hliðsjónar, en hvergi var vísað til þess í dómi Hæstaréttar. 

Ráðuneytið sagði peninga ekki til

Málarekstur fyrir Mannréttindadómstólnum er kostnaðarsamur en ekki er hægt að sækja um gjafsókn eða hefur hið opinbera viljað aðstoða Erlu eða lögmenn hennar í þeim þremur málum sem hún hefur höfðað. Stærstan hluta vinnunar hafa því lögmenn unnið ókeypis, en Blaðamannafélag Íslands styrkti málareksturinn í fyrsta málinu. Gunnar Ingi segir að óskað hafi verið eftir því í tvígang að ríkið styrkti Erlu í málarekstri sínum, enda hafi ríkið lagst gegn því að málskostnaður yrði greiddur vegna tveggja þeirra mála sem á undan höfðu unnist fyrir dómnum ytra. Í fyrra skiptið hafi svar ekki fengist þegar leitað var til Innanríkisráðherra, sem þá var Ögmundur Jónassson. Í seinna skiptið, haustið 2014, hafi beiðninni verið hafnað af innanríkisráðuneytinu á þeirri forsendu að engir fjármunir væru tl í ráðuneytinu til að styðja við kaup Erlu á lögfræðiþjónustu. 

"Við fengum þau svör að engir peningar væru til í ráðuneytinu," sagði Gunnar lögmaður Erlu, sem furðar sig á þeim svörum í ljósi þess sem síðar kom í ljós um kaup ráðuneytisins á lögfræðiráðgjöf á sama tíma og svarið barst honum fyrir hönd Erlu.

En átti fyrir lekamálinu

Samkvæmt svari Innanríkisráðuneytisins sem birtist í apríl síðastliðnum við fyrirspurn þingmanns Pírata greiddi ráðuneytið 850 þúsund króna lögfræðikostnað vegna svokallaðs lekamáls á sama tíma, haustið 2014, í því skyni að kanna rétt aðstoðarmanna ráðherra og fleiri til að höfða meiðyrðamál vegna umfjöllunar fjölmiðla í lekamálinu.

"Ráðgjöfin sneri annars vegar að frumgreiningu LEX á því hvort umfjöllun fjölmiðla gæfi tilefni til höfðunar meiðyrðamáls eða annarra úrræða. Í kjölfarið tók aðstoðarmaður ráðherra ákvörðun um höfðun meiðyrðamáls og bar sjálfur kostnað af því máli," segir í svari ráðuneytisins.

"Ég efast ekki um að til hafi verið peningur, enda er ráðuneytið að kaupa alls kyns lögfræðiráðgjöf. Og ef það var til svona lítill peningur þá hefur hann bara farið í þetta," sagði Gunnar Ingi.

 

Ítrekað boðin sátt

Að sögn Gunnars Inga var íslenska ríkinu ítrekað boðið að semja um sátt í tveimur síðari málum Erlu áður en málin voru flutt fyrir Mannréttindadómstólnum. Því hafnaði ríkið í bæði skiptin. Nú síðast á haustmánuðum 2014 á þeirri forsendu að mat lögmanna ráðuneytisins væri að dómurinn sem þá var undir myndi standast fyrir Mannréttindadómstólnum. Að sögn Gunnars eru fjölmörg dæmi til um að ríkið hefði samið um mál á grundvelli fyrri úrskurða mannréttindadómstólsins. "Eftir að dómur féll gegn ríkini í Strassbourg í máli Þorgeirs Þorgeirssonar upp úr 1990 var það gert í fjölmörgum málum.

"Við fengum þau svör að engar líkur væru á að samið yrði um þetta mál. lögfræðingar ráðuneytisins hefði matið það engar líkur á því að þetta mál tapaðist fyrir Mannréttindadómstólnum," sagði Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Erlu Hlynsdóttur blaðamanns í Vikulokunum.