
Gagnrýnir Trump fyrir linkind í garð Rússa
Forsetaframbjóðandinn og utanríkisráðherrann fyrrverandi sagði að það væri mikil ráðgáta hvers vegna Trump hefði tekið á afskiptum Rússa af forsetakosningum árið 2016 af svo mikilli linkind. Hún ræddi málið á OzyFest í Central Park í New York í gær, að því er Guardian greinir frá.
Hillary sagði einnig frá því að rússneskir erindrekar ætli að hafa afskipti af þingkosningum í Bandaríkjunum í nóvember. Svo gæti farið að í þetta sinn ætli þeir að herja á innviði kosningakerfisins, svo sem með því að eiga við vefþjóna sem taka við niðurstöðum kosninganna og annan tækjabúnað. Þessar upplýsingar sagðist hún hafa fengið frá sérfræðingum í Silicon Valley. Hillary sagði að kosningakerfið væri berskjaldað fyrir afskiptum sem þessum og að stjórnvöld hafi ekki gripið til nægra ráðstafana.
Hún kallaði einnig eftir upplýsingum um það hvað forsetarnir tveir ræddu á fundi sínum í Helsinki. Á blaðamannafundi eftir leiðtogafundinn sagði Trump að hann tryði orðum Pútíns um að Rússar hafi ekki haft nein afskipti af forsetakosningunum. Sólarhring síðar sendi Trump frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að hann hafi mismælt sig og hafi ætlað að segja að hann sæi enga ástæðu fyrir því að hvers vegna Rússar hefðu ekki átt að hafa afskipti af kosningunum. Hann kvaðst trúa niðurstöðu leyniþjónustunnar sem oft hafi sagt að óyggjandi sannanir væru fyrir afskiptum Rússa.
Pútín er með mjög skýra stefnu, að sögn Hillary, hann vilji leysa upp Nato og Evrópusambandið og það alheimskerfi sem hafi orðið til eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Því sé það mikil ráðgáta hvers vegna Trump vilji vingast við hann.