Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gagnrýnir hvalveiðiskýrslu

24.01.2019 - 09:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Hagfræðistofnun virðist ekki hafa haft samband við hvalaskoðunarfyrirtæki við gerð skýrslu sinnar um hvalveiðar, þótt öðru sé haldið fram í skýrslunni. Þetta segir Aðalsteinn Svan Hjelm markaðsstjóri hjá hvalaskoðuninni við Hauganes í Eyjafirði.

Aðalsteinn er markaðsfræðingur og var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 um skýrsluna, sem Hagfræðistofnun gerði að beiðni sjávarútvegsráðherra. Fyrstu skipulögðu hvalaskoðunarferðirnar hófust hér á landi 1993 og það var einmitt frá Hauganesi. Aðalsteinn segir vanta alvöru rannsókn á áhrifum hvalveiða eins og hvalaskoðunarfyrirtæki hafi óskað eftir í fyrra.

„Við fáum ekki séð það í þessari skýrslu að það sé svona útgangspunkturinn heldur frekar það kannski að það sé verið að réttlæta það að veiða hvali burtséð frá okkur hinum. Það var ekkert haft samband við okkur. Það er reyndar tekið fram í skýrslunni að það hafi verið haft samband við hvalaskoðunarfyrirtæki og við höfum ekki enn fundið það aðila sem á þar í hlut,“ segir hann.  

Kannast sem sagt ykkar atvinnvegur, ykkar bransi, ekki við það að það hafi verið haft samráð við einn einasta mann?

„Nei, nei, ekki svo ég viti til og ég hef talað við Rannveigu í Eldingu og fleiri af stærstu aðilum hérna í þessum bransa hjá okkur og það kannast enginn við að hafa fengið símtal eða farið í viðtal. En samt er svona gefið í skyn í skýrslunni og strax í inngangi að það hafi verið haft samband við alla aðila. Og svo að sjálfsögðu var ekki haft samband við Samtök ferðaþjónustunnar og ekki Hvalaskoðunarsamtökin heldur.“

Viðbót skrifuð 13. feb. 2019: 

Sigurður Jóhannesson forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands segir fullyrðingu um að ekki hafi verið haft samband við hvalaskoðunarfyrirtæki við gerð skýrslunnar ranga. Talað hafi verið við fulltrúa sjö hvalaskoðunarfyrirtækja. Þar af, segir hann, að samkvæmt upplýsingum um farsímasamtöl hafi verið rætt við sex fyrirtæki í síma. Þá hafi verið talað við starfsmenn tveggja fyrirtækja í Reykjavíkurhöfn en áður hafði verið talað við annað þeirra fyrirtækja í síma.