Gagnrýni á veiðigjaldafrumvarpið réttmæt

08.06.2018 - 08:20
Mynd: Þór Ægisson/RÚV / Þór Ægisson/RÚV
Samkomulag um hvernig ljúka skuli þingstörfum náðist seint í gærkvöldi milli meirihlutans og minnihlutans á Alþingi. Frumvarp til breytinga á veiðigjöldum, sem lagt var fram fyrir skömmu, var sett í salt og verður þráðurinn tekinn upp að nýju í haust. Lögin verða óbreytt til áramóta. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að gagnrýni stjórnarandstöðunnar síðustu daga sé réttmæt, veiðigjaldafrumvarpið hafi komið of seint fram.

Forsætisráðherra segir að gagnrýni stjórnarandstöðunnar síðustu daga sé réttmæt, veiðigjaldafrumvarpið hafi komið of seint fram. „Stjórnarandstaðan andmælti því að þetta frumvarp kæmi svona seint fram og töldu að það þyrfti meiri tíma til að ræða þær breytingar. Það var okkar niðurstaðan að þetta væri réttmæt gagnrýni. Ég lagði því til að við myndum halda þessu óbreyttu til áramóta, að við myndum taka þessa umræðu næsta haust. Hins vegar gerði ég það að skilyrði að við myndum ná saman um að þinghaldi gæti lokið á næstu dögum eins og ætlunin var í starfsáætlun og það náðist í gær,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á Morgunvaktinni á Rás1 í morgun. 

Samhliða þessu var samið um afgreiðslu annarra mála og er reiknað með að þingstörfum ljúki innan fárra daga. Nokkur þeirra töfðu fyrir þinglokum. Meðal annars frumvarp um Íslandsstofu en Katrín segir að skipun stjórnar Íslandsstofu hafi verið helsta þrætueplið. Nokkuð hefur verið rætt um ósætti í baklandi Vinstri grænna með veru flokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu. Katrín segir tilefni til að ræða stöðu flokksins og árangur í sveitarstjórnarkosningum. „Það er auðvitað ástæða fyrir okkur til að hafa áhyggjur af því hvernig okkur hefur gengið í sveitarstjórnarkosningum frá því ég byrjaði í þessum flokki 2002. Ef ég tek árangurinn 2002, 2006, 2010 og 2014 og 2018 þá ber hann auðvitað þess merki að við höfum aldrei náð að festa okkur í sessi á sveitarstjórnarstiginu eins og í landsmálunum. Hins vegar þekkjum við það frá landsmálunum að okkar fylgi hefur farið ýmist með himinskautum eða verið í fimm prósentum eins og það var skömmu eftir að ég tók við flokknum. Ég segi það, það er full ástæða fyrir okkur, og það ætlum við að gera, við ætlum að fara aðeins yfir stöðuna. Pólitíkin á Íslandi er gerbreytt, flokkakerfið er gerbreytt, fólk er enn að tala um einhvern fjórflokk, það er bara löngu liðin tíð. En var ekki verið að refsa ykkur núna síðast? Það kann vel að vera að ríkisstjórnarsamstarfið hafi haft áhrif á gengi okkar en ég held að það hafi margt annað haft áhrif,“ segir Katrín.