Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gagnrýndur fyrir að sökkva eigin apaþjóðgarði

03.08.2018 - 12:43
Erlent · Afríka · Dýralíf · Gínea · Náttúra
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Wikimedia Commons
Alþjóðabankinn sætir nú gagnrýni fyrir að fjármagna virkjanaframkvæmdir í Gíneu sem gætu sökkt hluta af einu helsta verndarsvæði simpansa í heiminum og drepið upp undir 1.500 þeirra. Bankinn átti sjálfur þátt í að koma verndarsvæðinu á laggirnar fyrir innan við ári.

Ríkisstjórn Gíneu, tólf milljóna manna ríkis vestast í Afríku, stofnaði Moyen-Bafing-þjóðgarðinn í nóvember með stuðningi frá Alþjóðabankanum og tveimur námafyrirtækjum sem fengu í staðinn úthlutað landi undir námagröft. Náttúru- og dýraverndarsamtök fögnuðu framtakinu, ekki síst vegna þess að þar fengju 4.000 simpansar athvarf.

Afdrifaríkari fyrir simpansa en nokkur framkvæmd

Gleðin hefur nú umturnast í áhyggjur. Fyrir nokkrum vikum samþykkti ríkisstjórnin að leyfa kínverska fyrirtækinu Sinohydro að byggja 294 megavatta virkjun inni í þjóðgarðinum. Uppistöðulónið, á stærð við rúmlega fjórfalt borgarland Reykjavíkur, mundi sökkva drjúgum hluta garðsins og gæti þurrkað út allt að 1.500 dýr af undirtegundinni pan troglodytes verus, sem kallaðir eru vestur-simpansar.

Rebecca Kormos, prímatafræðingur sem hefur rannsakað simpansa í Gíneu í áratugi, segir við The Guardian að málið sé afar sorglegt. „Ef áætlanirnar verða að veruleika mun þessi framkvæmd hafa meiri afleiðingar fyrir simpansa en nokkur önnur í sögunni,“ segir hún. 

Vestur-simpönsum hefur fækkað um 80% á tveimur áratugum og eru í bráðaútrýmingarhættu. Í mörgum löndum eru þeir horfnir með öllu en best er staðan í Gíneu þar sem þeir eru um 16.500.

epa02739795 An exterior view of the Headquarters of the World Bank in Washington, DC, USA, on 18 May, 2011.  EPA/JIM LO SCALZO
Höfuðstöðvar Alþjóðabankans í Washington DC. Mynd: EPA
Höfuðstöðvar Alþjóðabankans í Washingtonborg.

Fjármagnaði fýsileikarannsóknir og umhverfismat

Alþjóðabankinn fjármagnaði fýsileikarannsóknir fyrir Koukoutamba-virkjunina og umhverfismat þar sem niðurstaðan var sú að ekki nema 200-300 simpansar yrðu fyrir áhrifum af framkvæmdunum. Kormos segir að í matinu sé stofnstærð simpansanna vanmetin. Það geri ekki ekki heldur gert ráð fyrir átökum apanna á milli um landsvæði, sem væru fyrirséð ef þeir yrðu hraktir frá heimkynnum sínum og gætu kostað marga þeirra lífið.

Bankinn hefur nú kallað eftir því að undirbúningur framkvæmdanna verði tímabundið settur á ís. Forsvarsmenn hans segja að hann hafi ekki veitt fé eða tæknilega ráðgjöf í stíflugerðina sjálfa og að enn sé unnið að því að meta umhverfis- og félagsleg áhrif hennar.

Ape Chimps Mammal Animal World Monkey Zoo Animal
 Mynd: MaxPixel

Rafmagn af skornum skammti í Gíneu

Koukoutamba-virkjunin hefði í för með sér að 8.700 manns þyrftu að flytjast búferlum en þrátt fyrir það og umhverfisáhrifin eru margir sem telja hana bráðnauðsynlega. Gínea er eitt fátækasta ríki veraldar og aðeins 3% heimila í dreifbýli eru tengd við rafmagn.

Gagnrýnendur halda því fram að rafmagnið mundi ekki nema að sáralitlu leyti fara til heimamanna – þrír fjórðu hlutar þess yrðu seldir úr landi og stór hluti afgangsins færi til erlendra námafyrirtækja á svæðinu. Ójafnt aðgengi að rafmagni hefur leitt til óeirða í landinu, síðast í september í fyrra.

Alþjóðabankinn er alþjóðleg fjármálastofnun sem hefur það hlutverk að styðja við uppbyggingu í þróunarlöndum.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV