Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gagnrýndi mannréttindabrot Sádi-Araba

25.02.2019 - 18:15
Mynd með færslu
Guðlaugur Þór ávarpar mannréttindaráðið. Mynd:
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, gagnrýndi Sádiarabísk stjórnvöld í ræðu sinni við opnun fertugustu fundalotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í dag. Hann gagnrýndi þarlend stjórnvöld fyrir bága stöðu mannréttinda og tilgreindi sérstaklega réttindi kvenna og morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Hann var myrtur á ræðisskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi 2. október. Í fyrstu neituðu stjórnvöld í Sádi-Arabíu því að útsendarar þeirra hefðu myrt blaðamanninn er drógu síðar í land. Þau hafa ákært ellefu manns fyrir aðild að morðinu og krefjast dauðarefsingar yfir fimm þeirra.

Ísland var kjörið í mannréttindaráðið síðasta sumar eftir að Bandaríkjamenn sögðu sig úr því. Í ræðu sinni í dag gagnrýndi Guðlaugur Þór einnig stjórnvöld í Tyrklandi fyrir handtökur á mannréttindaforkólfum, blaðamönnum og dómurum. Þá lýsti hann yfir áhyggjum íslenskra stjórnvalda af vaxandi hatri á gyðingum og múslimum í Evrópu, sem og gagnvart hinsegin fólki í Tsjetsjeníu og Tansaníu. 

Guðlaugur Þór sagði að ríki sem taki sæti í ráðinu eigi að sýna gott fordæmi og vera búin undir það að sæta gagnrýni þegar mannréttindi eru brotin. Hann sagði of marga mannréttindabrjóta í ráðinu og hvatti til aukinnar þátttöku smáríkja. „Ég vona að kjör Íslands í mannréttindaráðið geti orðið öðrum hvatning,“ sagði utanríkisráðherra í ræðu sinni í dag.