Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gagnrýna vaxtafyrirkomulag í frumvarpi um Menntasjóð

19.11.2019 - 09:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forseti Stúdentaráðs segir frumvarp um Menntasjóð námsmanna, sem ætlað er að koma í stað Lánasjóðs íslenskra námsmanna, fela í sér jákvæðar breytingar. Breytingar á vaxtakjörum séu hins vegar ekki af hinu góða og gangi í berhögg við niðurstöðu starfshóps um endurgreiðlubyrði námslána sem kynnt var í dag. Þá þurfi að breyta stuðningi á meðan á námi stendur. Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs, og Marinó Örn Ólafsson, lánasjóðsfulltrúi ráðsins, ræddu við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun.

„Það er náttúrulega ánægjulegt að það sé verið að innleiða styrkjakerfi að norrænni fyrirmynd. Styrkirnir sem eru í núverandi kerfi munu vera gagnsærri. Það er skýrara hvaða styrk þú ert að fá og hverjir fá hann. Í gildandi kerfi hefur þetta falist í því að það er verið að niðurgreiða vaxtakjör og það er styrkur ríkisins. Það gerir það að verkum að þeir sem greiða mest fá mesta styrkinn. Síðan þegar kemur að foreldrum þá eru þeir ekki lengur á barnalánum og að skuldsetja sig meira heldur fá barnastyrk. Þetta tvennt er það sem stendur mest upp úr varðandi jákvæða þáttinn,“ segir Jóna.

Sætta sig ekki við vaxtafyrirkomulagið

Jóna segir það vaxtafyrirkomulagið sem lagt er til með frumvarpinu þó vera óásættanlegt. „Vaxtakjörin eru að taka mjög miklum breytingum. Í dag er þetta þannig að það er búið að vera þannig síðan LÍN varð til í þeirri mynd sem það er í dag að stúdentar eru á eitt prósent vöxtum á námslánum. Þessu á að breyta. Það verður ekkert vaxtahámark, vextir munu hækka og þeir verða breytilegir. Við erum á móti því. Vaxtahækkanir eru ekki af hinu góða. Þá vísum við líka í fréttina sem birt var í dag um skýrslu starfshóps forsætisráðuneytisins. Þar eru allt aðrar hugmyndir á lofti sem eru áhugaverðar. Að vaxtahámarkið sé afnumið boðar mikla óvissu fyrir stúdenta því þá hefurðu enga leið til að vita á hvaða kjörum þú ert raunverulega að fara í þessa lántöku,“ segir hún.

Fjárhagserfiðleikar eru ein algengasta ástæða þess að nemendur hætta tímabundið í námi. Jóna segir að markmið frumvarpsins um hvatningu til þess að klára nám á réttum tíma verði ekki að veruleika nema það sé tryggt að námsmenn geti framfleytt sér á meðan á námi stendur. „Ef stuðningi á námstímanum sjálfum er ekki breytt að öðru leyti en með barnastyrkjunum þá hefurðu ekkert meiri möguleka á að hljóta þennan styrk og endar á hundrað prósent láni á hærri vöxtum.“

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV