Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gagnrýna val Hæstaréttar í dómnefnd

24.09.2015 - 13:36
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna gerir athugasemd við það að ekki hafi verið farið eftir jafnréttislögum við skipan dómnefndar sem fjallar um hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara. Forseti borgarstjórnar skorar á innanríkisráðherra að hunsa niðurstöðu nefndarinnar.

Kastljós fjallaði um málið í gær. Fimm karlar töldu Karl Axelsson, hæstaréttarlögmann, hæfastan í stöðu dómara en innanríkisráðuneytið benti Hæstarétti á að skipan hans í nefndina væri þvert á jafnréttislög.

Framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í hádeginu í dag.

Þar gerir stjórnin athugasemd við „það að ekki hafi verið farið eftir jafnréttislögum við skipan dómnefndar sem fjallar um hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara. Þá hafi ekki hafi komið fram málefnalegar ástæður fyrir frávikinu.“

Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, skorar á innanríkisráðherra að hunsa niðurstöðu „ólöglegar dómnefndar“ á Facebook-síðu sinni. 

Ég skora á innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, að hunsa niðurstöðu ólöglegrar dómnefndar, skipa nýja og hefja ráð...

Posted by Sóley Tómasdóttir on 24. september 2015

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að ákvæði jafnréttislaga ættu við um Hæstarétt. Þegar þeir sem tilnefna eigi tvo fulltrúa í nefnd, eins og Hæstiréttur gerir í þessu tilviki, sé það skýrt að tilnefna eigi karl og konu.