Til stendur að hækka hlutfall endurgreiðslunnar úr 20 prósentum í 25 prósent. Þetta er meðal annars gert til að bregðast við aukinni samkeppni um erlend kvikmyndaverkefni frá löndum eins og Noregi. Þarlend stjórnvöld vilja auka veg norskrar náttúru í erlendum kvikmyndum.
Þjónusta við erlend kvikmyndaverkefni hefur verið í miklum blóma hér á landi undanfarin ár - farið hafa fram tökur fyrir sjónvarpsþættina Fortitude og Game of Thrones og svo fyrir stórmyndir á borð við Noah, The Secret Life of Walter Mitty, Star Wars: The Force Awakens, Star Wars: Rogue One og nú nýverið Fast 8. Framleiðslukostnaður síðastnefndu myndarinnar nam 2,8 milljarði króna hér á landi en tökur fóru meðal annars fram við Mývatn og á Akranesi.
Félag kvikmyndagerðarmanna, FK, gerir athugasemdir við að ekki hafi verið haft fullt samstarf við félagið við smíði frumvarpsins. Því hafi boðist að koma að athugasemdum á lokametrunum en ekki hafi verið brugðist við þeim þegar frumvarpið var lagt fram á Alþingi um miðjan mars. Félagið styður frumvarpið en þó ekki athugasemdalaust, eins og kemur fram í umsögn þess til atvinnuveganefndar Alþingis.
Félagið segir í umsögn sinni að brýnt sé að lágmarksfjöldi íslenskra eða evrópskra faglærðra kvikmyndagerðarmanna starfi við þau verkefni sem gjaldgeng séu til endurgreiðslu - það hlutfall verði um 30 prósent.
Þá bendir FK á að brögð séu að því að „sumir íslenskir framleiðendur og þjónustufyrirtæki láti starfsfólk skrifa undir samninga sem innihalda ólögleg ákvæði um vinnutíma.“ Félagið segir enn fremur að borið hafi á því að brotið sé á fólki hvað varðar hvíldartíma, öryggi á tökustað og aðbúnað. Það verði því skilyrði að þeir sem ætli að nýta sér endurgreiðsluna virði íslensk lög um vinnutíma, laun, aðbúnaða og hollustuhætti.