Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gagnrýna greiðsluþátttökukerfið

Þakið á greiðsluþátttöku sjúklinga er of hátt, segja bæði ASÍ og Öryrkjabandalagið. Þau fagna því að komið sé til móts við sjúklinga sem þurft hafa að greiða mikið vegna veikinda sinna, en segja lausnina ekki fólgna í því að velta kostnaði yfir á aðra. Setja verði meira fé í málaflokkinn.

1. maí tók nýtt greiðsluþátttökukerfi gildi. Hámarkskostnaður á almennan sjúkling er nú tæplega 70 þúsund krónur á ári og 46 þúsund fyrir börn.

Markmiðið með kerfisbreytingunni er að lækka útgjöld þeirra sem  þurfa mikið á heilbrigðisþjónustu að halda og hafa greitt háar fjárhæðir fyrir þá þjónustu. ASÍ hefur áhyggjur af því að færri leiti til læknis eftir breytingarnar.

Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ, segir að þótt sambandið hafi stutt kerfisbreytinguna sem slíka þá hafi ýmislegt í því þótt gagnrýnivert. „Vð í sjálfu sér höfum stutt kerfisbreytinguna sem slíka, því hún er mikilvæg þar sem er verið að setja þak á kostnað þeirra sem hafa haft mjög háan heilbrigðiskostnað. Það er mikilvægt. Við höfum hins vegar bæði gagnrýnt að þakið er of hátt að okkar mati og það er fjármagnað í alltof miklum mæli með því að færa kostnað á milli hópa, frá þeim sem þá hafa þennan mjög mikla kostnað, yfir til þeirra sem þurfa þá sjaldnar að leita sér þjónustu. Við óttumst það að þær gjaldskrárbreytingar sem af þessu leiða, sem eru umtalsverðar í einhverjum tilvikum, verði til þesss að enn fleiri veigri sér við að leita til læknis vegna kostnaðar.“

ASÍ hefur tekið saman nokkur dæmi um afleiðingarnar breytinganna. Eitt dæmið er þjónusta geðlækna þar sem kostnaðurinn eykst í öllum flokkum, það er segja almennt gjald, hjá öldruðum og öryrkjum og eins hjá börnum án tilvísunar, en með tilvísun verður þjónusta fyrir þau gjaldfrjáls. Það sama er uppi á teningnum þegar kemur að þjónustu hjartalækna og eins þegar kemur að kvenlæknum. Henný minnir á að Íslendingar bera meiri kostnað vegna heilbrigðisþjónustu en íbúar annarra norrænna þjóða. 

„Þetta er að vissu leyti skref í rétta átt en við hefðum viljað sjá meira fjármagn inn í heilbrigðiskerfið,“ segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands. „Og við sjáum að af 270 þúsund manns eru 115 þúsund manns að fara að borga meira í nýju kerfi, en 155 þúsund manns minna. Við viljum sjá eitt greiðsluþátttökukerfi fyrir lyf og heilbrigðiskostnað. Við sjáum í þessu nýja kerfi er ekki verið að setja sálfræðiþjónustu inn, jú inn á heilsugæslustöðvar en það teljum við ekki nóg. Tannlækningar standa enn fyrir utan og tæknifrjóvganir.“