Gagnast að benda á erlenda andstæðinga

17.06.2013 - 20:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Sagnfræðingur segir að það geti gagnast valdhöfum að benda á og ýkja andstæðinga ytra, til að sameina þjóðina. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gagnrýndi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið í hátíðarræðu í dag.

Hann sagði að Íslendingar munu ekki láta alþjóðastofnun segja sér að ekki sé hægt að gera meira fyrir íslensk heimili og gagnrýndi Evrópusambandið fyrir að taka þátt í tilraunum til að láta Íslendinga taka á sig efnahagslegar byrðar vegna Icesave.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur segir að með þessu vilji forsætisráðherra sýna að Íslendingar bugti sig ekki og beygi fyrir útlendingum. „Hins vegar má ekki gleyma því að það voru réttkjörin stjórnvöld á Íslandi sem báðu eða grátbáðu Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að koma hér og bjarga því sem bjargað varð þegar allt var í kaldakoli. Þau eru kannski verst sjálfskaparvítin. Að sama skapi voru það réttkjörin stjórnvöld sem sóttu um aðild að Evrópusambandinu,“ segir Guðni. „Það getur verið gott fyrir valdhafa sem vilja hafa sameinaða þjóð að baki sér að horfa frekar frá ágreiningi innanlands og horfa til og jafnvel ýkja andstæðinga ytra,“ segir hann. 

Forsætisráðherra kom einnig inn á umræðuna um forsetann og ummæli hans um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hann sagði að líklega hefðu fáir trúað því 1944 að síðar yrði leitað til sérfræðinga til að spyrja hvort það heyrði undir viðeigandi umræðuefni fyrir forseta Íslands að tjá sig um fullveldi landsins. 

Guðni bendir á að af stjórnarskránni megi ráða að ríkisstjórnin og ráðherrar tali fyrir munn íslenskra stjórnvalda. Vandi skapist ef forsetinn talar þvert gegn afstöðu ríkisstjórnarinnar. Þá skapist stjórnskipuleg óvissa því að bæði Íslendingar og aðrir spyrji sig hvor tali fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, forsetinn eða ráðherrarnir.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi