Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Gagnamagn verður umtalsvert dýrara en áður

01.04.2014 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Stærsta breytingin á nýjustu þjónustuleiðum símafélaganna er ekki sú að símtöl og smáskilaboð verði ókeypis heldur sú að verðskráin fyrir gagnamagn hækkar umtalsvert. Þetta er niðurstaða tæknibloggsins Símon sem hefur skoðað hvað er fólgið í nýjum þjónustuleiðum símafélaganna.

Símafélögin tilkynntu fyrir helgi nýja þjónustuleið þar sem áhersla var lögð á að hér eftir yrði ekki greitt fyrir símtöl og smáskilaboð heldur aðeins fyrir gagnamagn. Þetta var sagt tengjast breyttri farsímanotkun landsmanna, með tilkomu snjallsíma, og kynnt sem mjög hagstæð leið.

Tæknibloggið Símon birtir í dag úttekt á nýju þjónustuleiðunum. Þar segir að mesta breytingin sé ekki fólgin í ótakmörkuðum ókeypis mínútum heldur í hækkun á verði gagnamagns. „Tími stórra pakka fyrir lítinn pening er liðinn," stendur í úttektinni. „Byltingin felst í því að nú hafa Vodafone, Tal og Síminn öll skipt yfir í ótakmörkuð símtöl og SMS, en hækkað verðið á gagnamagni umtalsvert." Að auki verði fróðlegt að sjá hvort ótakmarkað og endalaust sé í raun ótakmarkað og endalaust.

Símon ber saman þjónustuleiðirnar sem símafélögin bjóða. Mismunandi er eftir notkun hvers og eins hvaða leið væri hagstæðust. Minni pakkarnir eru hagkvæmari hjá Vodafone en Símanum, Tal er með flestar þjónustuleiðir í boði en er hætt að bjóða 10 GB á 500 krónur. Þá sé Alterna með ódýrasta stóra pakkann en bjóði ekki upp á fjórðu kynslóðar farsímaþjónustu.

Athugasemd: Vodafone vill taka fram að fólk geti eftir sem áður nýtt eldri þjónustuleiðir á sömu kjörum og áður hafa boðist. Taka verði tillit til þess við mat á þjónustuleiðum hvað sé innifalið en ekki aðeins til einstakra þjónustuþátta.