Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gagnagrunnur Panama-skjalanna opnaður í dag

09.05.2016 - 06:36
03.04.2016 Vefur SDZ, http://panamapapers.sueddeutsche.de/
 Mynd: Sueddeutsche Zeitung - Skjáskot
Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, opna í dag gagnagrunn sem unninn er upp úr Panama-skjölunum. Þar verður hægt að nálgast upplýsingar um yfir 200 þúsund aflandsfélög. Ekki verða birtar persónulegar upplýsingar - gögnin sem hægt verður að nálgast eru sérvalin með hagsmuni almennings í huga.

Á vef Reykjavik Media, sem hefur unnið upp úr Panama-skjölunum hér á landi, kemur fram að gagnagrunnurinn verði opnaður klukkan 18 í dag. Hann verður hægt að nálgast á vefnum Offshoreleaks.icij.org.

Umfjöllunin um Panama-skjölin hefur haft víðtæk áhrif á Íslandi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra og Júlíus Vífill Ingvarsson sem borgarfulltrúi í Reykjavík. Þá hættu tveir framkvæmdastjórar hjá lífeyrissjóðum - Kristján Örn Sigurðsson og Kári Arnór Kárason. 

Hrólfur Ölvisson og Vilhjálmur Þorsteinsson hættu báðir trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálaflokka - Hrólfur sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins en Vilhjálmur sem gjaldkeri Samfylkingarinnar.

Þá var greint frá því í síðustu viku Dorrit Moussaeiff, forsetafrú, væri talin tengjast að minnsta kosti tveimur aflandsfélögum.  Dorrit sagði í yfirlýsingu til fjölmiðla að hún hefði aldrei rætt fjármál fjölskyldu sinnar við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV