Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gáfu lyfjafóður við fiskilús í Dýrafirði

06.12.2017 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Matvælastofnun veitti í haust leyfi til að nota lyfjafóður gegn fiskilús í laxeldi í Dýrafirði. Fiskilúsin hafði slæm áhrif á laxinn sem var á viðkvæmum stað í vexti. Fóðrið er gefið þegar fiskurinn étur vel til að koma í veg fyrir að það verði að úrgangi.

 

Fiskilúsin hvimleið

Óvenjumikið var af fiskilús á laxi í Dýrafirði síðla sumars og í haust. Laxinn var settur í sjó í sumar og samkvæmt dýralækni Matvælastofnunar hafði lúsin slæm áhrif á laxinn sem var á viðkvæmu vaxtarskeiði. Fiskeldisfyrirtækið Arctic Seafarm sótti því um leyfi til að gefa lyfjafóðrið, sem Matvælastofnun veitti. Fiskilús er minni en laxalús og veldur ekki eins miklum skaða á roði en er hvimleið og getur valdið óþarfa áreiti. Sigríður Gísladóttir, dýralæknir Matvælastofnunar á Ísafirði, segir að góð reynsla sé af lyfjafóðrinu í Færeyjum þar sem einnig hefur verið mikið af fiskilús að undanförnu. Fóðrið á ekki að hafa áhrif á fiskinn sjálfan en drepa lúsina þegar hún nærir sig á laxinum. Fóðrið er gefið þegar fiskurinn étur mikið svo það falli ekki til botns og verði að úrgangi. Lyfjafóðrið er gefið í um viku en virkar þó lengur.

Marka stefnu í lúsamálum

Lyf við laxalús voru notuð í Arnarfirði snemma síðasta sumar. Ekki hefur þurft að ráðast í lyfjagjöf þar á ný en fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hefur sett hrognkelsi í kvíar sem éta laxalýs og þá hefur verið sett svokallað pils utan um kvíar til varnar smiti á laxalús. Sigríður segir þess að vænta að yfirvöld, þar með talin Matvælastofnun, marki sér stefnu í lúsamálum á næstunni meðal annars með hliðsjón af skýrslu stefnumótunarnefndar í fiskeldi.