Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gaf „jafnvel rangt“ svar um flugstöðvarsölu

15.06.2017 - 12:04
Benedikt Jóhannesson
 Mynd: RÚV
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra gaf „ónákvæmt og jafnvel rangt“ svar á Alþingi 31. maí við fyrirspurn um það hvort einhverjir hefðu sett sig í samband við ráðuneytið og sýnt áhuga á kaupum á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hann sagði að svo væri ekki, en reyndin er sú að tvö fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að koma að rekstri flugstöðvarinnar eða Isavia í heild.

Benedikt biðst afsökunar á þessu í færslu á Facebook-síðu sinni í kjölfar fyrirspurnar frá vefmiðlinum Stundinni. Hann segir að honum hafi einfaldlega ekki verið kunnugt um áhuga annars fyrirtækisins, og að hann hafi ekki litið svo á að hitt fyrirtækið hefði beinlínis haft áhuga á flugstöðinni, heldur Isavia í heild.

Sagði engan hafa sett sig í samband

Óli Halldórsson, varaþingmaður Vinstri grænna, beindi fyrirspurninni til Benedikts í óundirbúnum fyrirspurnartíma 31. maí. Hann spurði hvort Benedikt hefði fundið fyrir áhuga fjárfesta á kaupum á flugstöðinni. „Hafa erlendir eða innlendir fjárfestar sett sig í samband vegna áhuga á kaupum á Keflavíkurflugstöð? Hvernig hafa þessi samskipti verið við fjárfestana?“ spurði Óli meðal annars.

Svar Benedikts hófst á þessum orðum: „Frú forseti. Fyrst er því til að svara að það hefur enginn sett sig í samband við fjármálaráðuneytið með ósk um það að kaupa flugstöðina eða hluti tengda henni.“

„Þetta reyndist rangt“

Nú er komið í ljós að þetta var ekki rétt. Benedikt skrifar á Facebook í dag: „Síðar hefur mér orðið ljóst að svar mitt var ónákvæmt og jafnvel rangt og ég biðst afsökunar á því. Hér er spurt um flugstöðina, sem samgönguráðherra og meiri hluti fjárlaganefndar nefna sem hugsanlega söluvöru, en ekki flugvöllinn eða aðra hluta Isavia. Ég vissi ekki þá að neinn hefði sýnt flugstöðinni sérstakan áhuga. Þetta reyndist rangt.“

Eftir þennan þingfund hafi Ómar Örn Tryggvason, framkvæmdastjóri Innviða fjárfestinga, haft samband við hann og bent honum á að forsvarsmenn fyrirtækisins hefðu verið í sambandi við ráðuneytið fyrr á þessu ári um aðkomu þess að rekstri flugstöðvarinnar. Fyrirtækið hefði jafnframt átt í viðræðum við fyrri ríkisstjórn um málið.

Benedikt segist í framhaldinu hafa fundað með Ómari og Sigurgeiri Tryggvasyni og sagt þeim að sala á flugstöðinni væri ekki á dagskrá eins og er. „Ég hefði ekki ætlað að gera lítið úr fyrirtækinu eða áhuga þess, en ég hefði ekki vitað betur,“ segir Benedikt.

Annað fjárfestingarfyrirtæki fundaði með ráðherra

Þetta hafi orðið til þess að hann hafi kanað betur hvort fleiri hefðu sýnt kaupum á flugstöðinni áhuga. Hann segir frá því að Kvika banki hafi komið með fulltrúa Macquarie-fjárfestingasjóðsins í ráðuneytið 5. apríl til að kynna fyrirtækið og fjárfestingar þess í flugvöllum erlendis.

„Þó svo að þessir aðilar hafi ekki nefnt flugstöðina sérstaklega verður að segja að þeir hafi sýnt Isavia í heild áhuga, þó svo að meginefni fundarins hafi verið kynning á fyrirtækinu. Þessi hálftíma fundur var í mínum huga ekkert leyndarmál,“ skrifar Benedikt.

„Þess má svo geta að þann 31. maí, sama dag og fyrirspurnin var borin upp átti Gylfi Ólafsson aðstoðarmaður minn annan fund með þessum aðilum um sama efni. Um þetta vissi ég ekki þá, enda miklar annir á síðustu dögum þingsins,“ bætir hann við.

Veit ekki allt sem gerist í ráðuneytinu

„Mér þykir leitt að hafa ekki tekið nákvæmar til orða í svari mínu, en rétt hefði verið að segja að mér væri ekki kunnugt um að neinn hefði sýnt flugstöðinni sérstaklega áhuga, en ég hefði orðið var við áhuga á Isavia í heild og haldið svo áfram með svarið eins og ég gerði,“ segir fjármálaráðherra.

Þó að hann sé allur af vilja gerður viti hann ekki allt sem gerist innan ráðuneytisins.

 

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV