Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gaf dönsk rafræn skjöl um Ísland

Mynd með færslu
 Mynd:
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, gaf Þjóðskjalasafni Íslands rafrænt skjalasafn úr danska stjórnkerfinu, í tilefni af fullveldisafmælinu í gær. Skjalasafnið geymir um 20 þúsund síður af skjölum sem lýsa meðal annars aðdraganda sambandslaganna og sjálfstæði Íslands frá Danmörku árið 1944. Heimsókn Rasmussens lauk í dag.

Í danska stjórnkerfinu varð til gríðarlegt magn skjal sem snertu svokölluð Íslandsmálefni. Þessum skjölum var safnað í sérstakar möppur og þar kennir ýmissa grasa. Öllu var safnað sem var talið hafa þýðingu fyrir samskipti Íslands og Danmerkur og sérstaklega því sem snerti sjálfstæðistilburði Íslendinga. Skjölin eru frá árunum 1907 til 1944.

Gögnin eru aðgengileg á vefnum heimildir.is. Þar má fletta í gegnum síðurnar og lesa lýsingar á umræðunni á Íslandi, um viðhorf einstakra stjórnmálamanna og túlkanir starfsfólks í dönsku stjórnsýslunni.

Rasmussen kom víða við í heimsókn sinni til Íslands, eins og sagt er frá á vef Stjórnarráðsins. Hann lenti á föstudaginn á Reykjavíkurflugvelli og fór beint á fund Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands, í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Rasmussen fékk svo kynningu á Marel, HS Orku og Carbon Recycling International.

Lars Løkke og eiginkona hans fóru ásamt föruneyti í reiðtúr og sátu hádegisverð með Margréti Þórhildi Danadrottningu í hádeginu í gær, 1. desember. Hann tók svo þátt í setningu fullveldishátíðar við Stjórnarráð Íslands og sótti svo sýninguna Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni. Hann gaf síðan Þjóðaskjalsafninu rafræna skjalasafnið. Í gærkvöldi sátu hjónin svo hátíðarkvöldverð á Bessastöðum í boði Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, og sáu hátíðarsýninguna í Hörpu.