Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gætum veitt hrefnu áfram í stað langreyða

15.09.2014 - 22:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra telur að mótmæli Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og fleiri ríkja gegn hvalveiðum Íslendinga séu gerð að undirlagi Bandaríkjanna og hugsanlega sé verið að gefa upp boltann með að veiða hrefnu áfram gegn því að hætta langreyðarveiðum.

Sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi afhenti mótmælin formlega í utanríkisráðuneytinu í morgun ásamt fulltrúum frá sendiráðum Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Þýskalands. Ríkin hvetja íslensk stjórnvöld til að endurskoða ákvörðum um veiðileyfi sér í lagi á langreyðum og viðskiptum með þær afurðir. 

„Það kemur mér ekki á óvart núna og ég tengi þetta við Bandaríkin,“ segir Össur. „Bandaríkin hafa mjög farið upp á afturfæturna gagnvart Íslendingum varðandi hvalveiðar og ég held að þessi ályktun sé ekki síst til komin vegna þrýstings Bandaríkjamanna.“

Össur segir að lesa megi á milli línana að boðið sé upp á samningsgrundvöll eftir hvalategundum: 

„Sem að væri það að Íslendingar létu af langreyðarveiðum en mættu þá halda áfram að veiða hrefnu fyrir innanlandsnotkun,“ segir Össur.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra vildi ekki tjá sig um mótmælin í dag.

„Hann í sjálfu sér getur alveg sagt hvað honum finnst um þessa hluti en það sem honum er kannski illa við að horfast í augu við er það að Bandaríkin eru greinilega að sækja í sig veðrið í þessari baráttu. Það kann að tengjast því að það eru framundan kosningar í Bandaríkunum og þá vakna þessi mál alltaf,“ segir Össur.