Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Gætu veitt fjarstöddum ríkisborgararétt

29.07.2014 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Hópurinn Ekki fleiri brottvísanir skoraði í dag á innanríkisráðuneytið og Útlendingastofnun að veita Palestínumanninum Ramez Rassas hæli hér á landi. Þá var Útlendingastofnun krafin svara um það hvort mistök hafi verið gerð við málsmeðferð mannsins.

Í gær var utanríkisráðuneytinu afhentur undirskriftalisti til stuðnings Ramez og í dag lá leiðin í innanríkisráðuneytið og Útlendingastofnun, í sömu erindagjörðum.

Á hvorugum staðnum fékkst nokkur til að taka formlega við undirskriftunum eða svara fyrirspurnum. Hópurinn vill að Ramez fái íslenskan ríkisborgararétt og aðstoð við að komast aftur til Íslands. 

Benjamín Julian, talsmaður hans, bendir á að Bobby Fischer hafi fengið íslenskan ríkisborgararétt 2005, að honum fjarverandi. „Það tók Alþingi 2 klukkutíma að afgreiða það mál. Og ég held að ef vilji væri til þess á Alþingi að gefa Ramez vegabréf þá væri það hægt líka. Það er ekki þröskuldurinn. Það sem að er erfitt í þessu er að koma honum frá stríðssvæðinu og utanríkisráðuneytið sérhæfir sig í því fyrir íslenska borgara - sem að hann yrði ef hann fengi vegabréf,“ segir hann.

Ítrekað synjað í Noregi

Ramez flúði Gaza svæðið 2009 og sótti um hæli í Noregi. Þeirri beiðni var ítrekað hafnað og fjórum árum síðar ákvað hann að freista gæfunnar á Íslandi. Hann sótti um hæli sem flóttamaður í nóvember - en umsókninni var synjað. Þann 27. febrúar síðastlðinnn var Ramez sendur til Noregs og þaðan til Gaza um mánuði síðar. Hann býr nú á Gaza-svæðinu, þar sem 1100 Palestínumenn hafa fallið frá því árásir Ísraelsmanna hófust þann 8. júlí síðastliðinn.