Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Gætu þurft að selja nýja skipið

15.05.2012 - 20:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnarformaður Ísfélags Vestmannaeyja, segir að það kunni að verða nauðsynlegt að selja nýtt skip félagsins, verði áform um nýtt kvótakerfi að veruleika. Heimaey kom til heimahafnar í Eyjum í dag.

Heimaey sigldi inn til Vestmannaeyja í hádeginu. Skipið er fyrsta nýsmíði Ísfélags Vestmannaeyja frá því að skip með sama nafni var smíðað á Akureyri á árunum 1971-2. Tveggja ára seinkun varð á smíði nýju Heimaeyjar vegna náttúruhamfara í Chile. Upphaflega gerði Ísfélagið samning við Asmar skipasmíðastöðina um smíði tveggja uppsjávarskipa. Hætta varð við smíði annars þeirra vegna skemmda á stöðinni eftir flóðbylgju í Chile.

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélags Vestmannaeyja, sagði við athöfn í brú Heimaeyjar í dag að það væri ánægjulegt að hafa loks fengið skipið heim. Tilfinningar væru þó blendnar. Eftir átök við óblíða móður náttúru þyrfti nú að eiga við aðra óværu, og vísaði hann þar til fyrirhugaðra breytinga stjórnvalda á fiskveiðistjórnun. „Því er hins vegar ekki að leyna að ef fer sem horfir þá þurfum við sem ráðum Ísfélaginu að horfast í augu við þá staðreynd að það kann að verða nauðsynlegt að selja þetta glæsilega skip úr landi. Það yrði ömurlegur vitnisburður um íslenska stjórnarhætti,“ sagði Gunnlaugur Sævar.

Í viðtali við fréttastofu RÚV bætti Gunnlaugur við að útgerðir muni ekki fjárfesta í nýjum skipum ef fyrirhugaðar breytingar verði gerðar á fiskveiðilöggjöfinni. Aðspurður hvort þetta væri ekki dómsdagsspá á stórum degi þegar menn fagni komu nýja skipsins, sagði hann svo ekki vera, nóg væri að vísa til allra sérfræðinga sem um málið hafa fjallað. „Það eru allir sammála um það að þetta er algjörlega glórulaus fásinna,“ sagði Gunnlaugur og bætt við að veiðileyfagjöld megi ekki verða svo há sem rætt er um. „Við erum ekki skuldlaus þó við séum tiltölulega skuldlétt miðað við önnur félög,“ sagði Gunnlaugur Sævar um borð í nýju Heimaey VE-1 í Eyjum í dag.