Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gætu greint Heklugos fyrr með auknum mælingum

30.10.2018 - 22:34
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Með þéttara neti jarðskjálftamæla sem og mælingum á þenslu og gasi gæti verið hægt að greina fyrirboða eldgoss í Heklu fyrr en áður var. Þetta er mat hópstjóra í náttúruvárvöktun hjá Veðurstofunni.

 

Hafa aukið mælingar í Heklu

Í Kveik í kvöld kom fram að fyrirvari eldgosa í Heklu getur verið innan við klukkustund, jafnvel aðeins tuttugu mínútur. Veðurstofa Íslands hefur að undanförnu eflt mælingar við Heklu. „Við erum til dæmis með sex nýja jarðskjálftamæla sem eru settir alveg efst í hlíðar Heklu og við erum að vonast til þess að með því að vera með svona marga mæla svona nálægt eldstöðinni þá sé hægt að greina forboðana fyrr,“ segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands. „Þetta er í raun bara eins og að ver með meiri upplausn,“ segir Kristín.

Nota margskonar mælingar

Þá eru ekki aðeins jarðskjálftamælar notaðir við vöktun. „Það er mikilvægt við þessa eldgosavöktun að nálgast hana með ólíkum mælitækjum, meðal annars eru gasmælar, svo eru búið að setja marga GPS mæla til að skoða þenslu, og svo stöndum við hérna við drunumæli hér á Ísafirði, sem var settur upp hér til að fylgjast með snjóflóðum en það eru líka svona mælar á Suðurlandi og fyrir norðan Vatnajökul og tilgangur þeirra er fyrsta og fremst að fylgjast með eldfjöllunum.“

Mögulega meiri fyrirvari en árið 2000

Þá eru einnig þenslumælar í borholum í kringum Heklu. Niðurstöður allra þessa mælinga varpa skýrara ljósi á það hvort gos er í uppsiglingu og jafnvel fyrr en í síðasta gosi sem var árið 2000.  „Þegar við sjáum skýr merki um að eldgos er yfirvofandi þá grípum við til okkar viðbragðsáætlana og það sem stendur í þeim er að hafa samband við almannavarnir sem þá grípa til aðgerða og loka og svo höfum við samband við flugmálayfirvöld.“

Fá merkin á örfáum sekúndum

Kristín telur að auknar mælingar geti því gefið viðbragðsaðilum meiri tíma til að rýma og loka svæðinu. „Frá því að eitthvað mælist á jarðskjáltamæli og þar til það er komið á skjá hjá okkur á Veðurstofunni er 3-5 sekúndur svo viðbragðstíminn ætti að geta verið mjög stuttur.“

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður