Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gætu fengið meira fylgi en Framsókn ein

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, segir að flokkur sinn og flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar geti fengið samanlagt meira fylgi en Framsóknarflokkurinn hefði ella fengið.

Sigmundur gekk úr Framsóknarflokknum um helgina og boðar nýtt framboð. Hann sagði engar sáttatilraunir hafa verið reyndar innan flokksins en Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lét að því liggja að Sigmundur hefði ekki verið til í sættir.

„Viðkomandi aðilar báðir, eins og oft þegar svona kemur upp, segja mismunandi sögur af því. Ég held að aðalatriðið núna sé að horfa fram á við. Þessi atburður hefur átt sér stað. Það gerist oft líka í þessari stöðu að sameiginlegt fylgi beggja eykst oft við svona aðstæður. Við sáum það til að mynda: Viðreisn var ekkert annað en klofningur úr Sjálfstæðisflokknum. En ef þú tekur saman Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn var þetta líklega meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn hefði annars fengið. Það eru önnur dæmi um það í stjórnmálasögunni,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Hún rifjaði upp að þegar Ólafur Ragnar Grímsson gekk úr Framsóknarflokknum í Samtök frjálslyndra og vinstrimanna hefðu framboðin fengið samanlagt meira fylgi en Framsóknarflokkurinn áður. Hún sagði það heldur ekki nýtt að formenn flokka gengju til liðs við eða stofnuðu aðra flokka. Það hefði Tryggvi Þórhallsson, fyrrverandi formaður flokksins, gert á sínum tíma. Þá hefði Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, gengið til liðs við Viðreisn á síðasta ári en þá hefði reyndar verið langt um liðið síðan hann var formaður Sjálfstæðisflokksins.