Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gæti valdið mannfalli og fordæmalausri mengun

13.09.2017 - 19:43
Mynd: RUV / RUV
Mörg hundruð þúsund manns á norðurhveli jarðar gætu látið lífið vegna stórs eldgoss á Íslandi, segir prófessor í eldfjallafræði. Það myndi valda meiri mengun en þekkist í nútímasamfélagi.

Lakagígar spúðu eldi og brennisteini yfir stóran hluta jarðar í Skaftáreldum 1783-4. Mikil gjóska féll yfir landið, móða fór um allt norðurhvel og þakti einn fjórða af jörðinni, frá Miðjarðarhafi og norður að pól.

Þorvaldur Þórhallsson prófessor hefur rannsakað Skaftárelda stóran hluta starfsævinnar. Hann var með jarðfræðinga framtíðarinnar við rannsóknir á Reykjanestá í dag. Hann segir mengunina frá Skaftáreldum engu líka, líklega tíu sinnum meiri en sem kemur frá allri brennslu eldsneytis í heiminum og hún hafi verið viðvarandi í meira en hálft ár. „Við höfum ekki orðið fyrir svona mengun á svona stórum skala í nútímasamfélagi. Það er mjög líklegt að hún myndi hafa víðtæk áhrif, bæði á heilsu fólks. Við höfum rannsakað þetta með módelum og þau gefa til kynna að svona mengun myndi valda dauða allt að 150 til 300 þúsund manns,“ segir Þorvaldur. 

Mynd: RUV / RUV

Eyjafjallajökulsgosið 2010 hafði mikil áhrif á flugumferð en það er lítið samanborið við gos á stærð við Skaftárelda eða Eldgjárgosið 934. Skaftáreldar gjörbreyttu veðurfari á jörðinni en áhrifin eru fyrst og fremst vegna brennisteins. Í Skaftáreldum fóru upp í háloftin um það bil hundrað milljón tonn af brennisteinsdíoxíði og helmingi meira í Eldgjá. „Mengunin getur valdið heilsuvandamálum en svo getur móðan líka haft áhrif á andrúmsloftið þannig að það breytir loftstraumum, hefur áhrif á veðurfar sem hafa síðan aftur áhrif á uppskeruna hjá okkur og þar með áhrif á okkur sjálf. Þetta eru allt þættir sem við þurfum að taka tillit til og hugsa um hvernig við ætlum að bregðast við ef við fáum annað svona gos á okkur. Hvað er langt í næsta svona gos? Stórt er spurt, svona gos verða á 300-500 ára fresti hjá okkur og við erum komin með 230 til 240 ár frá Skaftáreldum þannig að það er stutt í næsta gos.“ 

Þorvaldur er annar aðalfyrirlesari alþjóðlegrar ráðstefnu um áhættustjórnun sem Háskólinn í Reykjavík, Stiki og samstarfsnet MIT háskólans í Bandaríkjunum standa að en Þorvaldur flytur erindi sitt á morgun.