Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gæti þýtt nýtt byggingaleyfi og önnur skilyrði

07.07.2017 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Sveitarstjóri Skútustaðahrepps segir að verði bygging Fosshótels við Mývatn úrskurðuð matsskyld gæti þurft að gefa út byggingaleyfi með viðbótarskilyrðum. samkvæmt niðurstöðum umhverfismatsins. Ekkert verði þó aðhafst í málinu fyrr en niðurstaða Skipulagsstofnunar liggi fyrir.

Ógilding Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála á þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar, að bygging hótels á Flatskalla við Mývatn skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, getur orðið til þess að Skútustaðahreppur þurfi að endurskoða útgáfu byggingaleyfis hótelsins. Forstjóri Skipulagfsstofnunar sagði í hádegisfréttum að nú þyrfti að taka alla málsmeðferðina upp að nýju og fara ítarlegar í ákveðna þætti í sinni ákvörðun.

Segir boltann hjá Skipulagsstofnun

Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, segir boltann hjá Skipulagsstofnun. „Byggingaleyfið sem sveitarfélagið gaf út á sínum tíma var gefið út í skjóli þess að Skipulagsstofnun taldi framkvæmdina ekki matsskylda. Þannig að við bíðum bara og sjáum hvað kemur frá Skipulagsstofnun og bregðumst bara við því.“

Taka þyrfti tillit til niðurstaðna í umhverfismati

Og hann segir tvennt í stöðunni. Verði niðurstaðan sú að hótelframkvæmdin þurfi ekki í mat á umhverfisáhrifum standi byggingaleyfið óbreytt. Þurfi hins vegar að ráðast í umhverfismat þyrfti að taka afgreiðslu byggingaleyfisins upp að nýju og taka tillit til niðurstaðna og sjónarmiða í því mati. „Og þannig væri þá til dæmis hægt að gefa út byggingaleyfi með einhverjum viðbótarskilyrðum sem að hvíldu þá á niðurstöðum umhverfismatsins,“ segir Þorsteinn.