Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Gæti þurft að hækka eftirlaunaaldur

20.03.2014 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Nefndir á vegum lífeyrissjóða og fjármálaráðuneytis skoða nú áhrif þess að hækka lífeyristökualdurinn í sjötíu ár. Tryggingastærðfræðingur segir að með því myndi núverandi iðgjald duga til þess að tryggja sjóðsfélögum þau réttindi sem þeir hafa áunnið sér.

Meðalaldur Íslendinga hækkar sífellt og þó að þessar auknu lífslíkur séu vissulega gleðiefni þá kalla þær á viðbrögð lífeyrissjóðanna. 

Núna eru um 36 þúsund manns 67 ára og eldri. Þessi hópur á eftir að stækka mjög og gerir Hagstofan ráð fyrir því að árið 2060 verði 97 þúsund manns á þessum aldri - eða nærri þrefalt fleiri. 

Verði ekkert að gert fær hver sjóðsfélagi minna greitt í lífeyri. Þess vegna velta menn því fyrir sér, bæði í réttindanefnd Landssambands lífeyrissjóða og nefnd á vegum fjármálaráðuneytis, hver eftirlaunaaldurinn þurfi að vera svo að núverandi iðgjald dugi fyrir réttindum sjóðsfélaga. 

Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur segir að það geti náðst jafnvægi með því að hækka lífeyristökualdurinn strax, um hálft ár eða svo í upphafi og svo um mánuð á ári næstu áratugi. Þannig yrði komist upp í 70 ár um 25-35 árum. 

Bjarni bendir á að lögin geri ráð fyrir að fólk fari á lífeyri á bilinu 60 til 70 ára. Hann segir að æskilegt væri ef að vinnumarkaðurinn á Íslandi væri sveigjanlegri, þannig að einstaklingurinn sjálfur geti ákveðið hvenær hann hættir. Enginn yrði þá þvingaður til að vinna til sjötugs en hafi fólk heilsu og löngun, geti það unnið áfram.

Meðalvinnuævi karla hefur lengst úr rúmum 37 árum árið 1991 í tæp 38 ár árið 2012. Meðalvinnuævi kvenna hefur hins vegar styst úr rúmum 38 árum árið 1991 í rúm 37 ár árið 2012.