Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Gæti þurft að boða til nýrra kosninga

07.05.2012 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnmálaskýrendur í Grikklandi segja óvíst að hægt verði að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar í gær og svo gæti farið að boðað verði til nýrra kosninga innan fárra vikna. Stjórnarflokkarnir guldu afhroð og engir tveir flokkar eru nógu stórir til að mynda starfhæfa stjórn.

Tveir stærstu flokkar fráfarandi stjórnar, Nýi lýðræðisflokkurinn og jafnaðarmannaflokkurinn PASOK, fengu samtals rétt um þriðjung atkvæða. Þessir tveir flokkar fengu samtals 77 prósent atkvæða í þingkosningunum fyrir þremur árum þannig að fylgishrunið er mikið. Evangelos Venizelos, leiðtogi PASOK, segir ljóst að flokkurinn hafi goldið fyrir að hafa fallist á mikinn niðurskurð, þrengingar og aðhald, til að bjarga Grikkjum frá þjóðargjaldþroti.

PASOK er nú þriðji stærsti þingflokkurinn, á eftir vinstribandalaginu Syriza sem fékk 16,6 prósent atkvæða. Þingmenn Syriza eru harðir andstæðingar samninga við Evrópusambandið. Stjórnarmyndunarumboðið verður fyrst um sinn í höndum Antonis Samaras, formanns Nýja Lýðræðisflokksins. Hann mun freista þess að fá fleiri flokka inn í stjórnarsamstarfið með PASOK og tryggja þannig nýjan meirihluta til að halda áfram á sömu braut og uppfylla samningana við ESB. Gangi það ekki eftir gæti verið komið að Syriza að láta til sín taka en eins og staðan er nú er ekki útlit fyrir að þeim tækist heldur að mynda starfhæfan meirihluta.

Meðal smærri flokka sem fengu menn kjörna í gær er Gullna dögunin, samtök nýnasista, en liðsmenn þeirra segja útlendinga höfuðpaura í öllu því sem miður fer í Grikklandi, og ofsækja innflytjendur á götum úti. Gullna dögunin fékk 6,9 prósent atkvæða í gær, og 21 þingmann. Uppnám varð á blaðamannafundi þeirra í morgun þegar krúnurakaðir liðsmenn flokksins kröfðust þess að allir viðstaddir stæðu upp fyrir formanni flokksins og vottuðu honum virðingu. Nokkrir blaðamenn og ljósmyndarar neituðu og var þeim hent út af fundinum.