Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gæti orðið góður fíkniefnaneytandi

Mynd: Ísþjóðin / RÚV

Gæti orðið góður fíkniefnaneytandi

18.02.2018 - 10:30

Höfundar

Á dögunum leit fyrsta stiklan úr myndinni Lof mér að falla eftir Baldvin Z dagsins ljós, en í henni segir frá ástum og örlögum tveggja stelpna sem eru sprautufíklar. „Ég er ekkert að fara í þennan leiðangur til að búa til dýrustu forvarnarmynd Íslandssögunnar, alls ekki,“ segir Baldvin Z í viðtali við Lestina, „en ég held hún hafi gríðarlegt forvarnargildi þegar fram í sækir.“

Baldvin segist alltaf hafa augun opin fyrir góðum söguefnum en upphaf þessa verkefnis megi rekja til þess þegar hann tók að sér forvarnarverkefni sem datt svo upp fyrir um það leyti sem hann er að taka upp Vonarstræti. Þá fékk hann í hendarnar dagbækur stelpu sem hét Kristín Gerður sem lést fyrir 18 árum.

Öllum er sama um þessa krakka

„Þarna var veruleiki sem hvarflaði ekki að mér að hefði verið til á Íslandi, hvað þá á 9. og 10. áratugnum,“ segir Baldvin og bætir við að mjög erfitt hafi verið að lesa dagbækurnar. „Þessi heimur, það sér hann enginn, þetta er ekki heimurinn sem kemst í fréttirnar, hann er fyrir neðan hann. Öllum er sama um þessa krakka og það er ekkert sem tekur á móti þeim ef þau komast út. Við erum mjög fordómafull gagnvart þessu fólki, þetta eru bara aumingjar í okkar augum.“

Lof mér að falla verður frumsýnd 7. september.

Baldvin Z og Birgir Örn Steinarsson, sem einnig skrifaði með honum Vonarstræti, tala þvínæst við Jóhannes Kr. Kristjánsson sem upplýsir þá um ástandið hafi bara versnað og kemur þeim í samband við stelpur í mikilli neyslu sem þeir taka löng viðtöl við. „Eftir það sáum við að þarna var nægur efniviður en við vorum ekki komnir með söguna,“ segir Baldvin og leggur áherslu á þolinmæði sé mikilvæg í þróun góðrar sögu. „Það skilur að góða sögu frá vondri, að leyfa efninu að anda og gera nokkrar atlögur að sögunni,“ en þeir félagar fóru tvisvar af stað með hugmyndir sem þeir hentu eftir að þeir voru komnir nokkuð áleiðis – áður en þeir duttu niður á söguna sem varð að lokum að Lof mér að falla.

Mynd með færslu
 Mynd: Lof mér að falla

„Það er engin sena skálduð í myndinni. Sagan sem slík er skálduð en allir atburðirnir hafa gerst,“ segir Baldvin sem hefur lengi laðast að myrkari hliðum mannlegrar tilveru sem umfjöllunarefni í verkum sínum. „Ég held ég fari í þessu myrku horn því ég er í eðli mínu glaður og hress náungi, ætli ég fái ekki útrás fyrir dökku hliðarnar í kvikmyndagerðinni.“ Hann segist hafa haft djúpstæða hvöt til að segja sögur allt frá barnæsku, og hafi til að mynda lesið upp sögur um bangsann sinn vikulega í grunnskóla. „Ég var mikið að forðast hversdagsleikann sem krakki, mamma var mjög veik í langan tíma þannig ég var alltaf að búa mér til annan raunveruleika, hliðarveruleika sem ég lifði í.“

Meira stressandi að hugsa um börn en 300 manna tökulið

Þegar Baldvin var 11 ára gamall uppgötvaði hann svo kvikmyndagerð sem listform þegar hann sá Twin Peaks þætti leikstjórans David Lynch. „Ég gerði fyrstu stuttmyndina mína stuttu seinna og kallaði hana Tvídranga. Það voru svona sömu element; dvergur, risi og fólk að tala aftur á bak. Ég fann að þetta var leiðin mín til að segja mínar sögur, leið til að halda áfram að vera í mínum hliðarveruleika,“ segir Baldvin. Hann segir að hann sé öruggur í sínu skinni í kvikmyndagerð þrátt fyrir að það sé erfiður bransi. „Mér finnst miklu meira stressandi að hugsa um börnin mín heldur en að vera á tökustað og stjórna 300 manns, fullt af peningum í húfi og allir tuðandi. Þar er ég bara að segja mína sögu. Þú stýrir ekkert hinni sögunni.“

Mynd með færslu
 Mynd: Lof mér að falla

Baldvin segir að það mikilvægasta fyrir sig sé að sjá að verk sín vekji upp tilfinningar í áhorfendum. „Það eru mest fullnægjandi viðbrögð sem ég get fengið. Þegar maður er orðinn samdauna verkinu eftir langan tíma og sér svo einhvern gráta eða hlægja yfir því. Bara svo lengi sem það sé tilfinning.“ Í nýju myndinni Lof mér að falla vinnur hann með tvo sterk öfl: Ást og fíkn. „Ég er alveg í eðli mínu líka pínu fíkill, ég gæti auðveldlega orðið góður fíkniefnaneytandi. Maður er vinnufíkill og svona,“ segir Baldvin. „En svo á ég fjölskyldu og börn og gæti ekki séð fyrir mér lífið að gera eitthvað annað. Ég hef verið ákveðinn frá því ég var 11 ára að verða kvikmyndagerðarmaður.“

Anna Gyða Sigurgísladóttir ræddi við leikstjórann Baldvin Z um kvikmyndina Lof mér að falla. Baldvin Z vakti gríðarlega athygli fyrir mynd sína Vonarstræti frá árinu 2015 sem hlaut 12 Edduverðlaun og um 50.000 manns sáu í kvikmyndahúsum. Hlustið á viðtalið í heild í spilaranum hér að ofan. Lof mér að falla er frumsýnd 7. september.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Reynir sterki veitti leyfi að handan

Kvikmyndir

Ný stikla úr „Reyni sterka“ eftir Baldvin Z

Kvikmyndir

Harmleikur sem tvístraði fjölskyldunni

Menningarefni

„Mamma kvaddi mig en ég kvaddi ekki mömmu“