Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gæti orðið annað besta laxveiðiárið

01.11.2015 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: landinn - ruv
Árið 2015 gæti orðið annað mesta laxveiðiár á Íslandi. Sveifla í laxveiði á milli ára kemur sérfræðingum á óvart. Mikið veiddist af smálaxi í ár, sem gefur fyrirheit um mikið af stærri laxi á næsta ári.

Veiði var hætt í síðustu ánum 20. október og veiði ársins er ekki enn komin alveg í ljós. Hún er þó svipuð og árin 2009 og 2010. Þá veiddust tæplega 75 þúsund laxar. Árið 2008 veiddust rúmlega 84 þúsund laxar. Guðni Guðbergsson fiskifræðingur og sviðsstjóri hjá Veiðimálastofnun segir að eftir sé að skoða tölurnar betur. Í samanburði á milli ára að hlutfall þess að veiða og sleppa aukist. Hluti af þeim fiski sé veiddur oftar en einu sinni sem hafi áhrif á heildarútkomuna. Hann segir að veiði hafi aukist um allt land, en þó síst á Norðaustur- og Austurlandi. Þó séu á því svæði ár þar sem met hafi fallið, eins og reyndin hafi verið í ám víða um land.

Laxveiðiárið í fyrra var með lakasta móti. Sveiflan upp í ár kemur fræðimönnum ánægjulega á óvart. Mikið var af smálaxi og það vekur bjartsýni. Guðni segir að mikill smálax hafi jafnan þýtt meira af tveggja ára laxi á næsta ári. Hann gangi fyrr á veiðitímanum þannig að upphaf veiðitímans þá geti orðið kröftugt. Hann segir að óvæntar aðstæður geti breytt þessu og enn erfiðara sé að segja um eins árs laxinn næsta sumar. Kalt vor hafi áhrif á gönguseiði þessa árs. Síðan taki við óvissa um aðstæður í hafinu, hitastig, æti, afrán og fleira. „Við höfum bara ekki upplýsingar til þess að meta það fyrr heldur en eftir á, þannig að það er eiginlega óskrifað blað fyrr en að ári".

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV