Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gæti hlýnað um 4 stig - aukin náttúruvá

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Hitastig á jörðinni gæti hækkað um fjögur stig á öldinni vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Óvissan er meiri á Íslandi. Loftslagsbreytingar eru náttúruvá, segir í nýrri skýrslu og brýnt að huga að áhættustýringu.

Vísindanefnd skilaði loftsslagsskýrslu í dag og var hún kynnt á Veðurstofunni. Þessi skýrsla er ítarlegri en fyrri skýrslur sem gerðar voru 2001 og 2008. Umhverfisráðuneytið lét gera skýrsluna og segir ráðherra að bæði verði draga úr gróðurhúsalofttegundum og aðlagast breytingunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Svínafellsjökull með um 115 ára millibili

Tvær myndir sem teknar voru af Svínafellsjökli sýna í hnotskurn áhrif hlýnunar jarðar. Sú fyrri var tekin einhvern tíma á árunum 1902 til 1904. Sú fyrri var tekin 2016. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Halldór Björnsson

Halldór Björnsson formaður vísindanefndarinnar segir að hlýnun á þessari öld fari eftir því hve mikið losað er að gróðurhúsalofttegundunum:

„Hnattræn hlýnun, ef það verður losað mjög mikið, gæti orðið allt að fjórum gráðum á öldinni. Ef það er losað minna þá erum við kannski að tala um eina gráðu og svo allt þar á milli.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Úr skýrslu um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi

Þetta línurit sýnir hlýnunina sem orðið hefur og rauða línan sýnir 4 stiga hlýnun í lok aldar en sú bláa eins stigs hlýnun. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Úr skýrslu um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi

Síðustu áratugi hefur hlýnað mun meira norðan við Ísland en sunnan við. Hlýnun fyrir norðan gæti á öldinni orðið tvöfalt meiri en annars staðar en fyrir sunnan land gæti hún orðið minni. 

„Við erum þarna einhvers staðar á milli þannig að hlýnunin gæti orðið eitthvað meiri norðanlands en sunnanlands. En umfram allt þýðir þetta að breytileikinn og sem sagt að óvissan gæti orðið meiri hjá okkur en víða annars staðar.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
fr_20180503_085694.jpg

Á Íslandi síðustu áratugi hefur hlýnað mjög skarpt og er hlýnunin að mestu bundin við vestur og norðvesturhluta landsins. 

Haldi áfram að hlýna halda jöklar áfram að hopa og grænkun, eða gróður verður meiri.

„Svo koma auðvitað aðrir hlutir inn. Við höfum áhyggjur af náttúruvá sem getur aukist vegna þess að úrkomuflóð gætu orðið verri og einnig með hækkandi sjávarstöðu þá gætu líka sjávarflóð orðið verri. Þetta eru allt hlutir sem þarf að hafa í huga og þarf að bregðast við.“

Í ábendingum vísindanefndarinnar er meðal annars lagt til að vakta áhrif loftslagsbreytinga mun betur en nú sé gert. Vöktunin nú sé ófullnægjandi og þá þurfi að rannsaka efnahagsleg áhrif breytinganna. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra kynnir ríkisstjórn skýrsluna á þriðjudaginn og ætlar að setja á laggirnar loftslagsráð í þessum mánuði eða næsta. Hann segir mikilvægt að gera landsáætlun um aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga eins og hækkun sjávarborðs, súrnun sjávar og aukinni eldgosa- og flóðatíðni:

„Þar sem við getum á sama tíma verið að draga úr gróðurhúsalofttegundum að þær sleppi út og því að aðlagast breytingunum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson