Gæti gengið af heilsárshótelum dauðum

31.05.2017 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Ferðamenn við Hengifoss
Hótelstjórar á landsbyggðinni hafa sumir áhyggjur af næsta vetri og því að hækkun á gengi krónunnar geri þeim útilokað að halda opnu allt árið. Á Seyðisfirði hefur hótelbyggingu verið slegið á frest, á Breiðdalsvík boðar hótelstjóri vetrarlokun og á Djúpavogi eru gestir farnir að spara við sig í mat og drykk.

Kaupa sér einfaldari rétti

Á Hótel Framtíð á Djúpavogi er rekinn veitingastaður og þar eru verð á matseðli þau sömu og í fyrra; í krónum talið. Flestir sem þar borða eru hins vegar erlendir ferðamenn og styrking krónunnar jafngildir allt að 25% verðhækkun, segir Þórir Stefánsson hótelstjóri. „Við finnum strax fyrir því að fólk fer meira í einfaldari rétti miðað við síðasta sumar. Við erum til dæmis með rétt dagsins  í kringum 4500. Innifalið er súpa, fiskur yfirleitt í aðalrétt og kaffi eða te á eftir en það þykir bara dýrt gagnvart erlendum gestum sérstaklega,“ segir Þórir.

„Gengið er að leika okkur grátt“

Austan við Djúpavog er Breiðdalsvík og þar er Hótel Bláfell. Friðrik Árnason eigandi og hótelstjóri sér ekki fram á að geta haft opið í vetur. „Dæmið bara gengur ekki upp lengur það er búið að vera opið allt árið síðan 1983. Breytingin er sú að gengið er að leika okkur grátt það virðist vera sem ferðamenn eru að koma í styttri ferðir til Íslands, dvelja í styttri tíma og koma þess vegna ekki svona langt út á land. Sú breyting að ferðamenn séu að koma allt árið hefur bara ekki náð til okkar austur. Hún nær að Höfn í Hornafirði en hefur bara ekki náð lengra,“ segir Friðrik.

Airbnb gangi af heilsárshótelum dauðum

Á Hótel Bláfelli hafa um 35 manns starfað á sumrin en 6 á veturna undanfarin ár og þau heilsársstörf eru nú í hættu. Friðrik segir að gisting í heimahúsum í gegnum Airbnb hafi tekið mikilvæga kúnna sem mikið muni um á veturna. „Þessi tvö og tvö herbergi sem að við þurfum á að halda á veturna til að halda úti heilsársstarfsemi og fólki í vinnu, þessi Airbnb eru bara að taka þetta því miður frá okkur og þar af leiðandi að ganga af heilsárshótelum dauðum,“ segir Friðrik.

Hótelbyggingu frestað á Seyðisfirði

Þær fréttir bárust svo frá Seyðisfirði í gær að þar hefði byggingu á 42 herbergja hóteli verið slegið á frest. Í tilkynningu frá Tindum Hóteli er ástæðan sögð sterk staða krónunnar og óvissa vegna versnandi afkomu og boðaðra skattahækkana á ferðaþjónustu.

Jöklar og norðurljós líka í öðrum löndum

Þórir Stefánsson á Hótel Framtíð á Djúpavogi hefur áhyggjur af því að Ísland verði undir í samkeppni um ferðamenn sem vilja sjá jökla og norðurljós. „Ég hef verið í góðu sambandi við erlendar ferðaskrifstofur og ferðaheildsala og þeir hafa bent á að það er fullt af öðrum löndum sem eru líka spennandi kostur heim að sækja. Af því að við höfum nú mikið verið að stóla á jöklana og norðurljósin og það eru lönd hér í kring sem menn eru farnir að horfa til að senda sína gesti frekar en til Íslands,“ segir Þórir. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV