Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gæsluvarðhald staðfest yfir öðrum skipverjanum

Mynd: RÚV / RÚV
Dómari við Héraðsdóm Reykjaness úrskurðaði nú í hádeginu annan af skipverjunum tveimur, sem handteknir voru á grænlenska togaranum Polar Nanoq, í tveggja vikna gæsluvarðhald. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og sagði Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi, að úrskurður héraðsdóms yrði kærður til Hæstaréttar til að fá lengra gæsluvarðhald.

Einar Guðberg sagði í hádegisfréttum RÚV að lögregla hefði rökstuddan grun um að þeir hefðu mögulega átt þátt í hvarfi Birnu Brjánsdóttur sem ekkert hefur til spurst frá því á laugardagsmorgun.   „Við þurfum lengri tíma til að rannsaka mögulegan þátt þeirra í málinu.“ 

Eru þeir grunaðir um refsiverða háttsemi? „Já - við grunum þá um refsiverða háttsemi.“ 

Yfirheyrslur yfir mönnunum tveimur halda áfram í dag. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um gæsluvarðhald yfir þriðja skipverjanum sem handtekinn var í gærkvöld. Skýrslutökur yfir honum hófust á áttunda tímanum í morgun. Búið er að taka skýrslur af öðrum úr áhöfn togarans en enginn þeirra liggur undir grun.

Einar Guðberg sagðist ekki geta sagt hvað hefði komið út úr yfirheyrslunum í nótt. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, vildi heldur ekki segja hvað hefði komið út úr rannsókn á Polar Nanoq né á rauðum Kia Rio sem lagt var hald á í Kópavogi á mánudag.

Visir.is segist hafa heimildir fyrir því að gögn úr bílnum bendi til þess að misindisverk hafi verið framið í bílnum. Lögreglan vill þó ekki staðfesta það.

Ekkert hefur spurst til Birnu frá því á aðfaranótt laugardags - vitað er að hún yfirgaf skemmtistaðinn Húrra um klukkan fimm um nóttina.  Á eftirlitsmyndavél lögreglu sést hvar hún gengur upp Austurstræti, Bankastræti og síðan Laugaveg en hún sést síðast við Laugaveg 31.  Frá því að rannsókn á hvarfi hennar hófst hefur lögreglan óskað eftir að ná tali af ökumanni á rauðum Kia Rio. 

Aðfaranótt þriðjudags fundust skór sem lögreglan telur að séu í eigu Birnu og síðar sama dag tóku böndin að berast að grænlenska togaranum eftir að í ljós kom að bíll sömu tegundar sást á eftirlitsmyndavélum á hafnarsvæði Hafnarfjarðarhafnar. Nokkrir úr áhöfninni höfðu verið með slíkan bíl á leigu hjá bílaleigu.

Síðar um kvöldið var flogið með rannsóknarlögreglumenn um borð í danskt herskip og á miðvikudag flaug þyrla Landhelgisgæslunnar með liðsmenn sérsveitar ríkislögreglustjóra í átt að togaranum. Sérsveitarmennirnir fóru um borð í Polar Nanoq og handtóku tvo skipverja strax. Seinna sama dag var þriðji skipverjinn handtekinn.

Skipinu var snúið til Íslands og lagðist að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn klukkan 23 í gærkvöld.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV