Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gaddafi leystur úr haldi eftir sakaruppgjöf

10.06.2017 - 22:47
Erlent · Afríka · Líbía
epa06021855 (FILE) A file photograph shows Saif al-Islam Gaddafi, at a press conference in Tripoli, Libya, 23 March 2010 (reissued on 10 June 2017). According to media reports on 10 June 2017, Saif al-Islam Gaddafi has been released from prison under an
Saif al-Islam Gaddafi árið 2010. Mynd: EPA
Saif al-Islam Gaddafi, sonur Muammar Gaddafi fyrrverandi leiðtoga Líbíu, var leystur úr fangelsi í bænum Zintan í vesturhluta Líbíu í kvöld. Al Jazeera fréttastofan greinir frá þessu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu vígahreyfingarinnar Abu Baks al-Siddiq, sem hefur yfirráð yfir Zintan. Saif al-Islam Gaddafi var veitt sakaruppgjöf í Tripoli, þar sem hann var dæmdur til dauða árið 2015.

Vígasamtökin handsömuðu Saif í Zintan í nóvember 2011. Hann var þá á flótta undan uppreisnarmönnum sem höfðu náð yfirráðum í Tripoli, og hugðist halda til nágrannaríkisins Níger í norðri. Saif var af stjórnvöldum á vesturlöndum talinn vera arftaki föður síns í hlutverki leiðtoga landsins. Hann nam við við London School of Economics og var vel þekktur í Lundúnum.

Vonast var til þess að hann myndi vinna að breytingum á stjórnkerfi og efnahag Líbíu þegar hann sneri aftur til heimalandsins. Því var ekki að skipta, heldur tók hann þegar til starfa í stjórn föður síns og aðstoðaði við að reyna að halda aftur af uppreisnarmönnum.

Uppreisnarmenn náðu völdum í höfuðborginni Tripoli árið 2011 eins og áður segir. Fjórum árum síðar var blásið til mikilla réttarhalda gegn embættismönnum í stjórn Muammars Gaddafis. Þar var Saif dæmdur til dauða. Nú hefur honum verið veitt sakaruppgjöf af yfirvöldum í Tripoli, og töldu vígasamtökin í Zintan því óhætt að leysa hann úr haldi. Saif er enn eftirlýstur af Alþjóðaglæpadómstólnum þar sem hann er kærður fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV