Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrstu útköll í Vestmannaeyjum

14.02.2020 - 02:03
Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Björgunarsveitarmenn í Vestmannaeyjum fóru í tvö útköll á öðrum tímanum í nótt. Þakkjölur fauk af litlum hluta húss og tjaldvagn fór af stað. Ekki eru þó miklar skemmdir af þessu að talið er.

Huginn Egilsson, varðstjóri hjá Lögreglunni í Vestmannaeyjum, sagði í samtali við fréttastofu rétt fyrir klukkan tvö að farið væri að bæta talsvert í vind. Veðrið sem spáð hefur verið virðist því vera að skella á í Vestmannaeyjum.

Mesti vindur það sem af er nóttu mældist á Stórhöfða milli klukkan eitt og tvö í nótt. Þá fór vindur í 39 metra á sekúndu, 48 metra á sekúndu í hvössustu hviðunni. Þrátt fyrir að öllu minni vindur sé inni í bænum en á Stórhöfða og bærinn ágætlega varinn fyrir austuráttinni er farið að hvessa hressilega sem fyrr segir.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur leggur út af spákortum í færslu á Facebook. Hann veltir upp þeirri spurningu hvort meðalvindur á Stórhöfða geti farið í 40 til 45 metra á sekúndu snemma í fyrramálið. Mesti meðalvindur sem þar hefur mælst var 56,6 metrar á sekúndu 3. febrúar 1991, fyrir 29 árum.

Fréttin var uppfærð með nýrri upplýsingum um mesta vind.