Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarp lokið

15.12.2017 - 20:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrstu umræðu Alþingis um fjárlagafrumvarp næsta árs lauk klukkan rúmlega átta í kvöld. Frumvarpið fer nú til meðferðar hjá fjárlaganefnd þingsins sem kemur saman til fundar klukkan hálf níu í fyrramálið. Tveimur tímum síðar hefst þingfundur á Alþingi.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var meðal síðustu ræðumanna. Hún sagði að mikið hefði verið rætt um þá fórnfýsi í fjárlagafrumvarpinu að hækka frítekjumark eldri borgara úr 25 í 100 þúsund krónur. Þetta fólk hefði sætt ofur- og okursköttum á þessar tekjur.  „Ef það kallast fórnfýsi að ríkissjóðs og í þessu fjárlagafrumvarpi, upp á 1,1 milljarð, að gefa fólki kost á því að borga bara eðlilegan tekjuskatt af laununum sínum þá er ég afskaplega tæp í reikningi og líður verr en ég hélt.„

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að umræðan hefði tekist ágætlega þrátt fyrir erfiðar aðstæður, vegna þess hversu skammur tími gefst til fjárlagavinnunnar. Hann sagði að margvíslegar ábendingar hefðu fengist í umræðunni, sem hann taldi að orðið hefði verið við í fjárlagafrumvarpinu. „Jafnvægi á milli þess að standa við fyrri yfirlýsingar um að við þyrftum að nýta þessa efnahagssveiflu sem hefur verið með okkur síðustu ár til að halda áfram að greiða upp skuldir, búa þannig í haginn fyrir framtíðina,“ sagði Bjarni og bætti við: „En jafnvægi milli þess annars vegar og hins að einmitt styrkja samfélagsþjónustu, víða í ríkisrekstrinum. Þessi umræða hefur snúist að miklu leyti um heilbrigðismálin og við erum að gera töluvert umfram það sem var samþykkt hér í ríkisfjármálaáætlun síðastliðið vor.“