Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fyrstu sveitarstjórnarkosningarnar í 20 ár

14.05.2017 - 04:07
Erlent · Asía · Nepal · Stjórnmál
In this May 11, 2017 photo, supporters of Nepali Congress party march during an election campaign event in Bhaktapur, Nepal. Much has changed since Nepal last held local elections 20 years ago _ the Himalayan country's 240-year monarchy was abolished
Stuðningsfólk Kongress-flokksins á kosningafundi í Bhaktapur Mynd: AP
Sveitarstjórnarkosningar eru hafnar í Nepal; þær fyrstu síðan 1997. Kjörstaðir voru opnaðir klukkan 7 að morgni, eða 1.15 í nótt að íslenskum tíma. Kosið er í þremur fylkjum af sjö í þessum fyrri hluta kosninganna, en kosið verður í hinum fylkjunum fjórum 14. júní. Um 50.000 manns eru í framboði til embættis bæjar- og borgarstjóra, varabæjarstjóra og sveitarstjórnarmanna í 283 sveitarfélögum í fylkjunum þremur. Nöfn 873 frambjóðenda eru á nær metralöngum kjörseðlinum í höfuðborginni Katmandú.

Ástæðan fyrir því að kosið er í tvennu lagi er ólgan sem verið hefur síðustu ár í láglendis- og landbúnaðarhéruðunum fjórum sem liggja að Indlandi. Þar eru heimkynni Madhesi-þjóðarinnar, minnihlutahóps í Nepal, sem neitar að taka þátt í kosningunum fyrr en gerðar hafa verið tilteknar breytingar á stjórnarskrá landsins.

Áratuga ólga og átök

Kjörtímabil síðustu sveitarstjóra og -stjórna sem kosnar voru rann út 2002, í miðju borgarastríði. Embættismenn hafa sinnt starfi sveitarstjórna allar götur síðan. Í frétt AFP-fréttastofunnar af kosningunum segir að þeir hafi oftar en ekki verið ráðnir á grundvelli hollustu sinnar við ráðandi stjórnmálaöfl í landinu. Hermt er að spilling hafi grasserað hvarvetna í opinbera kerfinu á þessum tíma. Rekstur  heilbrigðiskerfisins, mannaráðningar í ríkisreknum grunnskólum og allt þar á milli er sagt í höndum spilltra skriffinna, og það standi allri grundvallarþjónustu hins opinbera fyrir þrifum.

Eftir áratuga átök stjórnarhers og uppreisnarsveita Maóista tókst loks að semja um frið í landinu árið 2006. Þeir samningar mörkuðu endalok konungsveldisins Nepals og upphaf raunverulegs lýðræðis. Ný stjórnarskrá var eitt af frumskilyrðum friðarsamkomulagsins. Hún var lengi í smíðum og tók ekki gildi fyrr en 2015.

Fólk af Indverskum uppruna telur sér mismunað

Þrátt fyrir þann langa tíma sem tekinn var til verksins eru langt í frá allir ánægðir með niðurstöðuna, og allra síst Madhesi-þjóðirnar á frjósömum landbúnaðarhéruðum landsins, sem hlykkjast meðfram um 1.000 kílómetra löngum landamærunum við Indland.

Madhesi-fólkið, sem er af indverskum uppruna, telur sér mismunað í nýju stjórnarskránni, og lokaði þess vegna landamærunum að Indlandi um um nokkurra mánaða skeið í mótmælaskyni eftir að hún tók gildi. Þetta leiddi til mikils skorts á ýmsum nauðsynjum meðan á mótmælaaðgerðunum stóð.

Hótanir þeirra um að sniðganga sveitarstjórnarkosningarnar ef réttur þeirra yrði ekki tryggður með viðeigandi breytingum á stjórnarskránni varð til þess að stjórnvöld sáu sig tilneydd að láta kosningarnar fara fram í tvennu lagi. Ríkisstjórnin hefur heitið því að gera umbeðnar breytingar á stjórnarskránni á næstu vikum. Þingstyrkur samsteypustjórnarinnar sem nú er við völd er hins vegar ekki mjög traustur, og því alls óvíst hvort nægur meirihluti fáist til að keyra þær breytingar í gegn. 

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV