Fyrstu Róhingjarnir snúa aftur heim

15.04.2018 - 04:07
Erlent · Asía · Mjanmar · Róhingjar
epa06213638 Rohingya refugees stand in front of a makeshift tent with their children in Ukhiya, Bangladesh, 19 September 2017. Myanmar's State Counsellor Aung San Suu Kyi said the governments of Myanmar and neighboring Bangladesh were working to
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fimm manna Róhingjafjölskyldu sem flúði átök í heimahéraðinu til Bangladess hefur verið komið fyrir í sérstökum búðum nærri heimabyggð. Þetta er fyrsta fjölskyldan sem send er aftur til síns heima.

Um 700 þúsund Róhingjar flúðu ofsóknir af hálfu stjórnarhers Mjanmar yfir til Bangladess í ágúst í fyrra. Sameinuðu þjóðirnar sögðu aðfarir stjórnarhersins vera þjóðernishreinsanir, en stjórnvöld neita því alfarið. Þau segja vígamenn úr röðum Róhingja hafa verið skotmark hermanna.

Stefnt var að því að koma Róhingjum aftur til heimaslóða í janúar. Þeirri áætlun hefur ítrekað verið frestað, og hafa ásakanir gengið á báða bóga um lélegan undirbúning. Sameinuðu þjóðirnar segja aðstæður enn ekki nægilega góðar til að Róhingjar geti snúið heim. Þrátt fyrir það er ein fjölskylda nú komin í búðir sem stjórnvöld hafa sett upp í Rakhine, heimahéraði Róhingja.
AFP fréttastofan hefur eftir stjórnvöldum í Mjanmar að gengið hafi verið úr skugga um að fjölskyldan hafi búið þarna áður. Þeim svar svo úthlutað skilríki til staðfestingar um nafn og heimilisfang þeirra. Skilríkið jafngildir þó ekki þeim skilríkjum sem Mjanmörum er úthlutað til staðfestingar um ríkisfang sitt.

Fjölskyldunni verður komið fyrir hjá ættingjum í bænum Maungdaw fyrst um sinn. Ekkert var gefið upp í yfirlýsingunni um hvort von væri á fleiri flóttamönnum til baka.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi