Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrstu meðalhraðamyndavélarnar settar upp

20.01.2019 - 07:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Vegagerðin undirbýr að taka í notkun nýja tegund hraðamyndavéla sem reikna út meðalhraða yfir langa vegalengd. Vélar hafa verið settar upp í Norðfjarðargöngum og á Grindavíkurvegi en eru ekki komnar í notkun.

Þeir sem hafa ekið um Norðfjarðargöng nýlega hafa tekið eftir búnaði sem gefur frá sér rautt ljós þegar ekið er fram hjá. Þessi myndavél mælir ekki hraða heldur reiknar hann út. Hún tekur mynd af bílnúmerinu og skráir klukkan hvað ekið var fram hjá. Við hinn enda ganganna er svo önnur vél sem einnig tekur mynd og reiknar kerfið út meðalhraðann þar á milli. Ef hann er of mikill fær lögreglan upplýsingar um málið og sendir út sekt. „Það verður bara gaman að sjá hvernig það gengur. Það lítur allavega vel út þessi reynsla sem Norðmenn hafa af þessum vélum,“ segir Jónas Wilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.

Hefðbundnar hraðamyndavélar mæla aðeins svokallaðan punkthraða, hraða sem ekið er á fram hjá myndavélinni. Þær hafa þann ókost að ökumenn auka gjarnan hraðann þegar þeir eru komnir fram hjá en nýju vélarnar ná yfir stærra svæði. Vegagerðin gerði tilraun með meðalhraðamyndavélar fyrir fjórum árum sem gafst vel. Meðalhraðamyndavélar duga þó ekki til að ná þeim sem vilja stunda ofsaakstur í göngunum og snúa við á miðri leið. Jónas bendir á að þeir gætu eftir sem áður mætt lögreglunni í göngunum. „Ég held bara að öll löggæsla í umferðinni auki öryggi vegfarenda, ég er bara þeirrar skoðunar. Við höfum hins vegar verið að mæla hérna í göngunum talsvert og farið þarna inn og á öllum tímum. Sem betur fer er mjög lítið um hraðakstur í göngunum hérna á Austurlandi,“ segir Jónas.

Til stendur að koma fyrir myndavélum sem reikna út meðalhraða víðar, fyrst og fremst í jarðgöngum og þar sem slys vegna hraðaksturs eru tíð. Slíkar vélar hafa þegar verið settar upp milli Grindavíkur og Bláalónsafleggjara en eru enn óvirkar. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er beðið eftir að Ríkislögreglustjóri samþykki formlega að búnaðurinn verði notaður til löggæslu.

Horfa á fréttatíma

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV