Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrstu lög Spilverks þjóðanna í 40 ár

Mynd: RÚV / RÚV

Fyrstu lög Spilverks þjóðanna í 40 ár

23.12.2018 - 10:00

Höfundar

Spilverk þjóðanna er vafalaust ein dáðasta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu og um hátíðirnar verður farið yfir sögu sveitarinnar í tveimur veglegum þáttum á Rás 2. Í þáttunum verða frumflutt tvö ný lög með sveitinni.

„Þegar ég kem í Hamrahlíðina hitti ég fyrir fólk sem er áhugasamt um svona kassagítartónlist sem gerir ekki út á hávaða heldur kannski frekar góða texta og slíkt ef vel vill til. Þannig verður til hópur í Menntaskólanum í Hamrahlíð sem heldur tónlistarkvöld og ég eiginlega bara geng í þau björg,“ segir Valgeir Guðjónsson um upphaf Spilverks þjóðanna, einnar almerkustu hljómsveitar íslenskrar tónlistarsögu, í tveimur nýjum útvarpsþáttum sem verða á dagskrá Rásar 2 um jólin.

Mynd með færslu
 Mynd:
Spilverk Þjóðanna ásamt Jim Smart ljósmyndara í janúar 1978.

Hlynur Einarsson og Tryggvi Dór Gíslason fjalla um sögu Spilverksins í þáttunum og ræða við liðsmenn þess. Spilverk þjóðanna er skipað Valgeiri Guðjónssyni, Sigurði Bjólu Garðarssyni, Agli Ólafssyni og Sigrúnu Hjálmtýsdóttur. Spilverkið var stofnað 1974 í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Að mestum hluta hafði sami mannskapur starfað áður undir öðrum nöfnum allt frá 1970, hljómsveitum eins og Hassansmjöri, Hljómsveit Árna Vilhjálmssonar og loks Egils áður en endanlegt nafn, Spilverk þjóðanna, varð ofan á 1974. Hljóðfæraleikurinn var framan af órafmagnaður og skilgreina liðsmenn tónlistina sem „handknúna kammermúsík með rokkívafi”, þar sem spilað var á kassagítara, kontrabassa og ýmis ásláttarhljóðfæri. Spilverk þjóðanna starfaði 1974-1979 og hefur ekki komið fram síðan nema við sérstök og hátíðleg tækifæri, eins og á afmælistónleikum Valgeirs og Diddúar.

Þættirnar um Spilverkið verða á Rás 2 um jólin, sá fyrri strax eftir hádegisfréttir á jóladag og hinn seinni á sama tíma á öðrum degi jóla. Í þáttunum verða flutt ný viðtöl við fjórmenningana þar sem þau fara yfir sögu hljómsveitarinnar í tali og tónum. Þar að auki leyfa þau hlustendum að hlýða á tvö lög sem urðu til fyrir skömmu. Skýrt skal tekið fram að lögin eru ekki fullbúin heldur aðeins grófunnar útgáfur.

Annað lagið heitir Hrádjamm og er það fyrsta nýja lagið sem heyrist frá Spilverki þjóðanna frá 1979. Hlusta má á lagið með því að smella á myndina efst í fréttinni.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Spilverk þjóðanna hyggur á endurkomu

Höfuðborgarsvæðið

Spilverkið kemur saman á ný