Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fyrstu íbúðirnar fljótlega auglýstar til leigu

25.02.2018 - 12:25
Mynd með færslu
Mynd sem sýnir fyrirhugaðar íbúðir við Móaveg. Fyrsta skóflustungan hefur verið tekin. Mynd: Yrki Arkitektar
Á næstu vikum verða fyrstu íbúðir í nýjum verkamannabústöðum auglýstar til leigu. Varaformaður íbúðafélagsins segir að verði umsóknirnar margar gæti þurft að draga um það hverjir fá úthlutað leiguíbúð.

Bjarg íbúðafélag, sem Alþýðusambandið og BSRB stofnuðu,  stefnir að því að 450 íbúðir verði komnar í byggingu hjá félaginu í lok ársins og rúmlega 1.000 til viðbótar á næstu þremur til fjórum árum. Fyrsta skóflustungan að byggingu með 155 íbúðum var tekin á föstudag. Árni Stefán Jónsson er varaformaður Bjargs.

„Það er svona gert ráð fyrir því að fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar eftir svona ár,“ segir Árni Stefán. Fólk þarf að vera félagar í BSRB eða í ASÍ og hafa tekjur á vissu tekjubili til að geta sótt um íbúðirnar. Þannig má einstaklingur hafa að hámarki fimm milljónir í árstekjur. Íbúðirnar verða leigðar til langs tíma. „Þetta eru íbúðir sem menn fá leigt og geta verið í þessum íbúðum eins lengi og menn kjósa,“ segir hann.

Úthlutunarreglur verði endanlega ákveðnar á næstu vikum. „Og þá förum við svona fljótlega að auglýsa fyrstu íbúðirnar til leigu.“

Árni Stefán segir ekki frágengið hvernig verði valið á milli umsækjenda. „Að lokum gæti þetta litið þannig út að við hreinlega þyrftum að draga. Ef margir eru í svipuðum aðstæðum að þá er engin önnur aðferð til betri, held ég, að það verði bara dregið úr potti.“

Árni Stefán segir að leigan eigi ekki að verða hærri en fjórðungur ráðstöfunartekna. Íbúðirnar séu ætlaðar tekjulægstu félagsmönnum Alþýðusambandsins og BSRB. Fólk sem fái íbúð úthlutað verði að geta staðið við að greiða leiguna. Gert sé ráð fyrir því að þeir sem séu verr settir fái aðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna.