Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fyrstu ákærur í rannsókn Muellers

30.10.2017 - 15:20
epa06298094 (FILE) - Former head of the Trump presidential campaign, Paul Manafort, takes in game four of the Major League Baseball (MLB) American League Championship Series (ALCS) playoffs between the New York Yankees and the Houston Astros at Yankee
Paul Manafort. Mynd: EPA-EFE - EPA
Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donads Trumps, og viðskiptafélagi hans Rick Gates, voru í dag ákærðir fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum og peningaþvætti. Þá var upplýst í dag að að George Papadopolous, ráðgjafi Trumps í kosningabaráttu hans, hefði fyrir nokkru viðurkennt að hafa sagt ósatt við yfirheyrslur.

Þetta eru fyrstu ákærurnar sem sprottnar eru af rannsókn á meintum afskiptum Rússa af kosningunum vestanhafs í fyrra, sem stýrt er af Robert Mueller, fyrrverandi yfirmanni alríkislögreglunnar FBI. Manafort og Gates var gert að gefa sig fram við yfirvöld í dag.

Samkvæmt breska útvarpinu eru ákærur á hendur þeim í tólf liðum, en tengjast ekki kosningabaráttu Trumps á neinn hátt. Þeir einnig sakaðir um ósannindi og að gefa ekki upp innistæður í erlendum bönkum og fjármálastofnunum.

Að sögn fréttastofunnar AFP eru Manafort og viðskiptafélagi hans Rick Gates meðal annars sakaðir um að leyna milljónum dollara sem þeir fengu fyrir störf í þágu Viktors Janúkóvitsj, fyrrverandi forseta Úkraínu, og  flokk hans. Þeir eru sagðir hafa starfað fyrir Janúkóvitsj, bæði meðan hann var í stjórn og stjórnarandstöðu.

Eftir að greint hafið verið frá ákærum sendi Trump frá sér yfirlýsingar á Twitter og sagði þær snúast um  mál sem gerst hefði löngu áður en Manafort hefði komið inn í kosningabaráttuna í fyrra. Hann kvað ekkert leynimakk hafa verið með Rússum og spurði hvers vegna rannsóknin beindist ekki að Hillary Clinton og Demókrataflokknum.