
Fyrstu ákærur í rannsókn Muellers
Þetta eru fyrstu ákærurnar sem sprottnar eru af rannsókn á meintum afskiptum Rússa af kosningunum vestanhafs í fyrra, sem stýrt er af Robert Mueller, fyrrverandi yfirmanni alríkislögreglunnar FBI. Manafort og Gates var gert að gefa sig fram við yfirvöld í dag.
Samkvæmt breska útvarpinu eru ákærur á hendur þeim í tólf liðum, en tengjast ekki kosningabaráttu Trumps á neinn hátt. Þeir einnig sakaðir um ósannindi og að gefa ekki upp innistæður í erlendum bönkum og fjármálastofnunum.
Að sögn fréttastofunnar AFP eru Manafort og viðskiptafélagi hans Rick Gates meðal annars sakaðir um að leyna milljónum dollara sem þeir fengu fyrir störf í þágu Viktors Janúkóvitsj, fyrrverandi forseta Úkraínu, og flokk hans. Þeir eru sagðir hafa starfað fyrir Janúkóvitsj, bæði meðan hann var í stjórn og stjórnarandstöðu.
Eftir að greint hafið verið frá ákærum sendi Trump frá sér yfirlýsingar á Twitter og sagði þær snúast um mál sem gerst hefði löngu áður en Manafort hefði komið inn í kosningabaráttuna í fyrra. Hann kvað ekkert leynimakk hafa verið með Rússum og spurði hvers vegna rannsóknin beindist ekki að Hillary Clinton og Demókrataflokknum.