Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrsti kvenkyns rafvirkinn sem lærði af konu

16.12.2018 - 18:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrsti kvenkyns rafvirkinn hér á landi sem útskrifast hjá kvenkyns rafvirkjameistara lauk nýverið sveinsprófi. Það er Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir en hún lærði rafvirkjun hjá Kristínu Birnu B Fossdal. Þær segja að viðhorf til iðngreina sé að breytast og að konur séu í sókn í iðnnámi. Þá þreyttu óvenju margar konur sveinspróf í húsasmíði um helgina.

Þótti skrýtið að vera kona í rafvirkjun

„Þegar ég fór í rafvirkjann var ein sem tók eina önn og hún þótti mjög skrýtin,“ segir Kristín Birna, meistari í rafvirkjun. „Ætli ég hafi ekki fetað í hennar fótspor og verið enn þá skrýtnari að klára.“ Hún segir að viðhorf til greinarinnar hafi breyst til betri vegar síðan þá þótt enn megi gera betur. „Ég held að þetta sé foreldravandamál. Ég held að foreldrar séu að beina börnunum sínum í bóknám og gleyma iðnnáminu.“

Trúði ekki að kona væri smiður

Fjörutíu og sjö nemar spreyttu sig nýverið á sveinsprófi í rafvirkjun, rafeindavirkjun og rafveituvirkjun, þar af ein kona, sú fyrsta sem lýkur prófi hjá kvenkyns meistara. „Ég var einmitt að ræða við eina sem er smiður,“ segir Aníta Sigurbjörg, sem lauk nýverið sveinsprófi í rafvirkjun. „Svo kemur til hennar stelpa og spyra hana „hvað gerir þú?““ rifjar Aníta upp. Stelpan hafi ekki trúað því að konan væri smiður. „Þarna er bara búið að útiloka fyrir þessari stelpu að kona geti verið smiður.“ 

Fleiri konur í húsasmíði

Fjörutíu og níu taka sveinspróf í húsasmíði um þessar mundir og þar af eru fimm stelpur. Það er óvenju hátt hlutfall en oftast eru konurnar ekki fleiri en tvær, segir kennari í faginu. „Mér finnst aðallega mikilvægt að fólk fái að gera eitthvað sem því finnst skemmtilegt,“ segir Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, nemandi í húsasmíði. „Ef engum körlum þætti gaman að gera ákveðinn hlut myndi ég ekki vilja neyða þá í það og eins með konur. Ef konum langar ekki til að vera húsasmiðir finnst mér ekki að þær ættu að gera það. Mér finnst bara að allir ættu að gera það sem þá langar til ef þeir geta.“

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV