Fyrsti áfangi borgarlínu kallar á tvær brýr

10.09.2019 - 06:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Það mun koma í ljós næsta vor hvenær fyrsti áfangi borgarlínu verður tekinn í notkun, en stefnt er að því að áfanginn muni ná frá miðborg til Ártúnshöfða annars vegar og frá miðborg og að Hamraborg í gegnum Vatnsmýri hins vegar. 

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, en þar segir jafnframt að þessi fyrsti áfangi borgarlínu kalli á tvær brýr. Það sé brú yfir Sæbraut og brú yfir Fossvog. Ekki er enn komin tímasetning á Fossvogsbrú, en stefnt að samkeppni um hana í haust. Þá er enn stefnt á að uppbygging borgarlínu hefjist árið 2021. 

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir við Morgunblaðið að þessi fyrsti áfangi borgarlínu verði mögulega innleiddur í þrepum. 

Eins og fréttastofa greindi frá í síðustu viku vinnur Strætó að nýju leiðaneti og er sú vinna langt komin er varðar stofnleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að hluti stofnleiða verði síðar alfarið hluti borgarlínu.  

Kynna á drög að nýju leiðaneti í október og á faghópur um leiðakerfismál, sem stofnaður var snemma á árinu, að skila skýrslu til stjórnar Strætó í nóvember. 

 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi