Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fyrsta vika Donalds Trumps Bandaríkjaforseta

27.01.2017 - 10:29
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Vika er í dag liðin frá því Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Trump hefur ekki setið auðum höndum. Hann hefur gefið út tólf tilskipanir og fyrirmæli um allt frá olíuleiðslum til heilbrigðismála, ráðningarbann og byggingu múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Árekstrar hans við fjölmiðla, fjölmenn mótmæli gegn embættistöku hans og ummæli um að pyntingar, hafa ekki síður vakið athygli.

Fréttaskýringin skiptist í umfjöllun um verk og framgöngu Trumps hvað varðar

  • Heilbrigðismál
  • Umhverfismál
  • Kvenréttindi
  • Mannréttindi
  • Aðgengi almennings að upplýsingum
  • Fjölmiðla
  • Mexíkó, múrinn og innflytjendamál
  • Utanríkisstefnu

Heilbrigðismál

Meðal fyrstu verka Trumps í embætti, sama dag og hann sór embættiseið, var að undirrita forsetatilskipun um að minnka útgjöld vegna heilbrigðitryggingakerfis sem forveri hans, Barack Obama kom á. Reince Priebus, starfsmannastjóri forsetans, sagði við undirritunina að tilskipuninni sé ætlað að lágmarka efnahagslega byrði kerfisins fyrir ríkissjóð, þar til heilbriðistryggingakerfið verði fellt úr gildi.

Loftslags- og umhverfismál

Sama dag og Trump sór embættiseið voru gerðar breytingar á heimasíðu bandaríska forsetaembættisins. Meðal annars var starfsáætlun gegn loftslagsbreytingum tekin út af síðunni. Í staðinn kom orkuáætlunin America First Energy Plan, eða orkuáætlun með Bandaríkin í fyrirrúmi. Þar segir að haldið hafi verið aftur af orkuiðnaðnum of lengi með íþyngjandi reglugerðum. Trump heitir því að fjarlægja skaðlegar og ónauðsynlegar stefnur á borð við aðgerðaáætlun gegn loftslagsbreytingum og vatnsverndarlög.

Trump hefur undirritað tvær tilskipanir um framkvæmdir við tvær umdeildar olíuleiðslur frá Kanada til Bandaríkjanna - Dakota Access Pipeline og Keystone. Barack Obama neitaði að veita leyfi fyrir fjórða huta Keystone-olíuleiðslunnar, árið 2015. Þá hefur Dakota Access-leiðslan verið afar umdeild, meðal annars vegna þess að hún liggur um forn verndarsvæði frumbyggja í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Fjöldi fólks hefur mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum, meðal annars með því að hafast við á svæðinu mánuðum saman. Í desember í fyrra ákvað verkfræðingaráð Bandaríkjahers að leiðslan yrði ekki lögð um umdeilt svæði vegna vatnsverndarsjónarmiða.

Mótmæli gegn Dakota-olíuleiðslunni í Washington.
 Mynd: EPA

Trump hefur nú fyrirskipað að flýtt verði fyrir framkvæmdum við Dakota-olíuleiðsluna. Þá hefur Trump hvatt til þess að aftur verði sótt um leyfi til lagningar Keystone-leiðslunnar. Auk þess hefur hann skipað innanríkisráðuneytinu að taka afstöðu til væntanlegrar umsóknar á innan við 60 dögum.

Kvenréttindi

Trump hefur innleitt að nýju bann við því að bandarísku skattfé verði varið til að styrkja samtök sem styðja eða bjóða upp á meðgöngurof.

Bandaríkin eru einn stærsti styrktaraðili alþjóðlegra hjálparsamtaka í heimi. Talið er að ákvörðunin hafi afdrifaríkar afleiðingar til að mynda í rómönsku Ameríku, þar sem algengt er að unglingsstúlkur verði óléttar og fjöldi kvenna deyr af barnsförum. Tilskipunin kemur í veg fyrir að samtök sem ráðleggja konum varðandi meðgöngurof og aðrar leiðir til að skipuleggja fjölskyldustærð, geta orðið af stórum hluta þess fjármagns sem þau hafa reitt sig á. Bannið hefur því ekki aðeins þau áhrif að færri konur eigi þess kost að binda enda á meðgöngu. Það getur líka orðið til þess fólk fái síður fræðslu um getnaðarvarnir, barneignir og kynsjúkdóma.

Kvennagangan í Washingtonborg, 21. janúar 2017.
 Mynd: EPA

Bann sem þetta var fyrst sett af Ronald Reagan, Bandaríkjaforseta og Repúblikana, árið 1984. Demókratinn Bill Clinton afnam það í forsetatíð sinni en George Bush, Repúblikani, kom því á aftur þegar hann varð forseti. Þegar Barack Obama, annar Demókrati, varð forseti 2009, afnam hann þetta bann aftur. Nú er það enn komið í gildi.

Daginn eftir embættistöku Trumps, laugardaginn 21. janúar, tóku hundruð þúsunda þátt í göngum fyrir auknu jafnrétti víða um heim. Kvenréttindagangan Women´s March var gengin í mörgum borgum Bandaríkjanna og víðar um heim - alls í um 600 borgum. Talið er að hálf milljón tekið þátt í Los Angeles og New York, þar sem margir göngumenn mótmæltu Trump, meðal annars vegna þess að hann hefur gortað sig af því að hafa áreitt konur kynferðislega.

Mannréttindi og pyntingar

Að kvöldi föstudagsins fyrir viku, þegar Trump sór embættiseið, var skýrsla atvinnumálaráðuneytisins um stöðu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks á vinnustöðum tekin af vefsíðu forsetaembættisins.

Trump sagði í kosningabaráttu sinni að hann vilji taka vatnspyntingar (e. Waterboarding) upp aftur og helst ganga mun lengra í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum. Í viðtali á fréttastöðinni ABC News, fullyrti Trump að pyntingar skili árangri við yfirheyrslur. Aðspurður hvort hann vildi, sem forseti, taka upp vatnspyntingar að nýju, svaraði Trump ekki beint heldur sagðist reiða sig á sína nánustu ráðgjafa. Þeir hafa talað gegn því að beita pyntingum við yfirheyrslur.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Aðgengi almennings að upplýsingum

Ríkisstjórn Trumps hefur sett bann við því að starfsmenn EPA - Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna - hafi samskipti við fjölmiðla. Ekki megi senda út fréttatilkynningar, setja færslur á bloggsíðu deilda stofnunarinnar eða skrifa í nafni hennar á samfélagsmiðla. Fréttastöðin CBS greinir frá og birtir póst þessa efnis. Að sögn CBS hefur fleiri stofnunum borist slíkar fyrirskipanir. Meðal annars landbúnaðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.

Stjórn Trumps krefst þess einnig að fá að fara yfir allar rannsóknir og gögn vísindamanna Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna áður en þau koma fyrir sjónir almennings. Sama á við um allt efni sem birt er á vefsíðu stofnunarinnar. Breska dagblaðið Guardian greindi frá á miðvikudag og hafi eftir Doug Ericksen, samstarfsmanni Trumps.

Fjölmiðlar

Trump hefur ítrekað sakað fjölmiðla um að fara með rangt mál, flytja hlutdrægar og rangar fréttir af sér og sagt fjölmiðla lygna og óheiðarlega. Afstaða hans virðist síst hafa mildast eftir að hann tók við embætti Bandaríkjaforseta. Á laugardag, daginn eftir embættistöku Trumps, hellti Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sér yfir fjölmiðlamenn á fundi í Hvíta húsinu.

Spicer sagði fjölmiðla óheiðarlega og sakaði þá um að ljúga um fjölda þeirra sem fylgdust með embættistökunni. Fjölmiðlar þyrftu að gjalda þessarar lygi dýru verði. Síðar var sýnt fram á að fjölmiðlar höfðu ekki logið til um fjölda þeirra sem fylgdust með Trump. Þvert á móti fór Spicer með rang mál þegar hann fullyrti að aldrei hafi fleiri fylgst með forseta sverja embættiseið.

Spicer ýjaði að því að Trump komi til með að snupra fjölmiðla og sagði að Trump myndi tala beint til þjóðarinnar.

Þá hefur handtaka sex fjölmiðlamanna á föstudag vakið athygli. Mennirnir fylgdust með mótmælum við embættistöku Trumps, að eigin sögn í því skyni að flytja af þeim fréttum. Þeir voru hins vegar handteknir í lögregluaðgerð, ásamt um 200 öðrum, og eiga yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi og 25 þúsund daga sekt, verði þeir sakfelldir. Þeir voru ákærðir á laugardag, en ekki skemur skyrt fram í lögregluskýrslum hvaða brot þeir eigi að hafa framið. Í frétt Guardian af málinu er haft eftir Carlos Lauria, yfirmanni alþjóðasamtaka um fjölmiðlavernd í Bandaríkjunum, að ákærurnar séu óviðeigandi. Hann óttast að þær sendi hryllileg skilaboð til fjölmiðlamanna sem ætli að fylgjast með mótmælum síðar.

Á fimmtudagskvöld birti New York Times síðan viðtal við Steve Bannon, nánasta ráðgjafa Trumps, þar sem hann segir að fjölmiðlar séu andstæðingur stjórnarinnar. Bannon sagði að sigur Trump í bandarísku forsetakosningunum hafi verið alger niðurlæging fyrir fjölmiðla. Þeir séu andstæðingur stjórnarinnar („opposition party“) og ættu að skammast sín, halda kjafti og hlusta.

Mexíkó, múrinn og innflytjendamál

Á miðvikudag skrifaði Trump undir tilskipun um að reisa múr eftir endilöngum landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Trump fullyrðir að mexíkóska þjóðin endurgreiði kostnaðinn við að reisa múrinn. Trump segir að viðræður við stjórnvöld í Mexíkó hefjist fljótlega. 

Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, tilkynnti hins vegar á fimmtudag að hann hafi aflýst fyrirhuguðum fundi sínum með Trump, sem átti að vera 31. janúar. Að kvöldi fimmtudags viðraði Sean Spicer þá hugmynd að leggja 20% innflutningstoll á vörur frá Mexíkó til að greiða fyrir múrinn. 

Í tilskipun Trumps er einnig kveðið á um að 10.000 verði ráðnir til viðbótar til að hafa umsjón með landamæraeftirliti og aðflutningi fólks til landsins. Þá er búist við að á næstunni reyni forsetinn að banna fólki frá nokkrum löndum þar sem múslímar eru í meirihluta, að koma til Bandaríkjanna. Talið er að þetta séu sjö ríki í Afríku og Miðausturlöndum - Sýrland, Írak, Íran, Líbýa, Súdan, Sómalía og Jemen.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Borgir þar sem yfirvölda veita takmarkaðri orku í innflytjendaeftirlit. Fyrsta griðaborgin (e. sanctuary city) í Bandaríkjunum var Los Angeles. Borgaryfirvöld ákváðu, árið 1979, að lögregla í borginni myndi ekki lengur stöðva fólk til þess eins að spyrja hvort það hefði dvalarleyfi í Bandaríkjunum. Árið 1989 samþykktu borgaryfirvöld í San Fransisco bann við því að sjóðum borgarinnar væri varið í að framfylga alríkislögum um innflytjendamál. Meðal annarra griðaborga eru Denver, San Diego, Seattle, Austin og Boston.

Trump hefur boðað að miklum fjölda fólks sem býr í Bandaríkjunum án tilskilinna leyfa, verði vísað úr landi. Viðbúið er að í griðaborgum mæti þessi áform mikilli andstöðu. Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International og Human Rights Watch hafa fordæmt framgöngu og málflutning Trumps í innflytjendamálum.

Utanríkisstefna byggð á öflugum her

Trump hyggst efla hersveit Bandaríkjanna og sjá til þess að ekkert ríki nái þeim styrk sem Bandaríkjaher hefur. Sterkur her á að verða miðpunktur utanríkisstefnu stjórnvalda sem geti með hernum komið á stöðugleika og friði í heiminum.

Óljóst er eftir sem áður hver utanríkisstefna Trumps er að öðru leyti, þótt stjórnmálaskýrendur segi að hann virðist aðhyllast einangrunarhyggju. Þá hafa bandamenn Bandaríkjanna virst órólegir vegna óvissu um framtíð samstarfs, einkum hvað snertir öryggis- og varnarmál. 

AFP fréttastofan greinir frá því að áður en Trump var settur í embætti forseta hafi hann í tveimur viðtölum sagt að NATO ætti við vanda að stríða. Í fyrsta lagi væri bandalagið úrelt vegna þess að það hafi verið stofnað fyrir fjölda ára. Í öðru lagi séu aðildarríki ekki að greiða það sem þeim ber. Áður en Trump tók við embætti lýstu stjórnvöld í Eystrasaltsríkjunum áhyggjum sínum af því að Rússar láti reyna á samstöðu NATO-ríkja. James Mattis, nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði hins vegar í samtali við breskan starfsbróður sinn í vikunni, að staðið verði við skuldbindingar Bandaríkjanna við NATO.

Á mánudag undirritaði Trump tilskipun um úrsögn Bandaríkjanna úr TPP - Trans Pacific Partnership. TPP er viðskipasamningur Kyrrhafsríkja, sem tólf ríki eiga aðild að. Samningurinn var undirritaður í október 2015 en hefur aðeins verið staðfestur af einu ríkjanna.

Auk þess sem greint er frá hér að frama, hefur Trump sett sett tímabundið bann við frekari ráðningum hjá hinu opinbera, að undanskildum hernum og störfum sem snúa að því að tryggja öryggi almennings. Þá hefur Trump fyrirskipað að þegar verið sé að leggja leiðslur í Bandaríkjunum eigi að nota eins mikið af bandarísku stáli og öðrum byggingarefnum sem framleidd eru í Bandaríkjunum, og frekast er unnt. Þá á að flýta fyrir leyfisveitingum fyrir bandaríska iðnframleiðendur og leyfisveitingum vegna framkvæmda sem teljast mikilvægar fyrir innviði landsins.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV