Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrsta vatnsaflsvirkjun HS Orku

25.03.2018 - 14:25
Mynd með færslu
 Mynd: HS Orka
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tók á fimmtudag fyrstu skóflustungu að byggingu Brúarvirkjunar í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum. Virkjunin er 9,9 megavatta rennslisvirkjun. Í tilkynningu frá HS Orku er haft eftir forstjóranum Ásgeiri Margeirssyni að skóflastungan sé stór áfangi en Brúarvirkjun fyrsta vatnsaflsvirkjunin í eigu HS Orku.

Virkjunin sé rennslisvirkjun með litla inntakstjörn og niðurgrafna fallpípu sem geri alla ásýnd í landslagi lítið áberandi. „Vegna smæðar virkjunarinnar var ekki skýlaus krafa um að hún þyrfti að fara í umhverfismat en við töldum mikilvægt að fara þá leið engu að síður, til að vanda til verka og gæta allra hagsmuna,“ er haft eftir Ásgeiri.

Í tilkynningu HS Orku segir að virkjunin muni styrkja afhendingaröryggi raforku í nágrannabyggðum, þar sem meðal annars séu fjölmörg stór gróðurhús. Þá muni virkjunarframkvæmdirnar skapa störf á svæðinu.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV