Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fyrsta þjóðarmorðið?

24.04.2015 - 15:13
Mynd: ASSOCIATED PRESS / AP Photo/Shaam News Network
Armenar minnast þess í dag að 100 ár eru liðin frá upphafi þjóðarmorðs Tyrkja á armenum í austurhluta Tyrklands. En Tyrkir þverneita því að þjóðarmorð hafi verið framið

Tuttugasta og fjórða apríl nítján hundruð og fimmtán eða fyrir réttum hundrað árum, voru mörg hundruð armenskir menntamenn í austurhluta Anatólíu í Tyrklandi handteknir, og síðar teknir af lífi. Armenar telja þennan atburða marka upphafið af þjóðarmorði Tyrkja á Armenum í landinu, en Tyrkir halda því enn dag dag í dag að aðeins hafi verið um að ræða einn atburð af mörgum sem hafi sett mark sitt á dauðastríð Ottóman veldisins, og heimstyrjöldina fyrri. Þegar sú styrjöld hófst bjuggu um tvær milljónir Armena í Tyrklandi, langflestir austast í landinu þar sem eru landamæri Tyrklands og Armeníu. Í stríðslok voru aðeins fjögur hundruð þúsund Armenar eftir, hinir höfðu verið myrtir eða höfðu látist af vödlum harðræðis sem þeir voru beittir. Hugtakið þjóðarmorð var ekki til á þessum tímam, en pólskur gyðingur Raphael Lemkin var fenginn til að rannsaka örlög Armenanna í Tyrklandi. Hann skilgreindi síðar þjóðarmorð sem lögfræðilegt hugtak, sem hann sneið að útrýmingarherð Hitlers Þýskalands á hendur gyðingum. Armenar og fjölmargir fræðimenn sem rannsakað hafa sögu seinni heimstyrjaldarinnar telja að sama eigi við um herför Tyrkja á hendur Armenum. En virtir fræðimenn hafa einnig komist að öndverðri niðurstöðu. Aburðanna er nú minnst í Armeníu og meðal þeirra sem eru í Armeníu í dag til að votta landsmönnum samúð sína eru Vladimir Pétín forseti Rússlands og Francios Hollande forseti Frakklands.

Armenar í Anatolíu voru eins konar yfirstétt meðal tyrkneskra og kúrdískra samborgara sinna. Þeir réðu verslun og viðskiptum, og nánast öll menntastétt austur Anatólíu var armensk. Eins og raunin var um kristna menn innan Tyrkjaveldis lengst af fengu Armenar að halda trú sinni og siðum, en þurftu að greiða hærri skatta en múslimar eða þeir sem snerust til islam í þægindaskyni. En þetta breyttist með tilkomu Ungtyrkjanna á veldisstól snemma á tuttugustu öld. Yfirlýst markmið þeirra að efla Ottóman ríkið sem komið var að fótum fram og efla einingu Tyrklands. Það sem á vesturlöndum var litið á sem venjulega þjóðernisstefnu hjá stjórnvöldum í Istanbul varð að hreinni kynþáttahyggju í austur Tyrklandi, skrifar breski rithöfundurinn og fræðimaðurinn James Pettifer í bók sinni, The Turkish Labyrinth eða tyrkneska völundarhúsið. Pettifer velkist ekki í vafa fyrir sitt leyti um að herferðin á hendur Armenum var skipulögð útrýming og þess vegna þjóðarmorð.

Þegar heimstyrjöldin fyrri braust út tóku Ungtyrkirnir sér stöðu við hlið Þjóðverja og réðust inn í Rússland í austri og hugðust taka borgina Bakú í Azerbajdsjan en það hefðu þeir betur látið ógert. Tyrkneski herinn beið afgerandi ósigur fyrir þeim rússneska. Ungtyrkirnir sem stjórnuðu ríkinu sökuðu Armena um um að hafa gerst fimmta herdeild og gengið í lið með Rússum og að þeir stefndu að því að kljúfa austurhluta Anatólíu, vöggu tyrknesks þjóðernis eins það var stundum kallað frá Tyrklandi og sameina hann Armeníu. Áætlun var gerð um hrekja Armena í brott og koma í veg fyrir það í eitt skipti fyrir öll að þeir kæmust nokkru sinni í þá aðstöðu að ógna einingu tyrkneska ríkisins, segir Pettifer. Og henni var hrint í framkvæmd. Fólki var smalað hundruðum þúsunda saman út úr landinu yfir eyðimörkina í átt til Sýrlands. Á leiðinni var fólkið yfirgengilegu harðræði, sem jafnvel menn eins og Atli Húnakonungur og Genghis Khan hefði verið fullsæmdir af, segir Pettifer ennfremur. Konum var nauðgað kerfisbundið og þær síðan hálshöggnar í augsýn mann sinna og fjölskyldna , algengt var að karla væru geltir og látið síðan blæða út. Markmiðið náðist, armenska samfélagið í Tyrklandi hefur ekki risið úr öskustónni síðan. Fámennur armenskur minnihluti býr enn í landinu, einkanlega í Istanbúl eða annars staðar í vestrinu. Það er svo kaldhæðni sögunnar að eftir að Armenarnir höfðu verið hraktir á brott tóku Kúrdar svæðið yfir. Austur Anatólía er því litlu tyrkneskari í dag en hún var meðan Armenar réðu lögum og lofum þar. Tugir þúsunda hafa látið lífið í átökum Tyrkja og Kúrda síðustu þrjátíu árin.

Þjóðarmorð eða ekki þjóðarmorð. Spurningin hefur eitrað samskipti Tyrkja við mörg lönd og gerir enn í dag. George Bush yngri Bandaríkjaforseta tókst á síðustu stunda að koma í veg fyrir að bandaríska þingið samþykkti yfirlýsingu þess efnis að Tyrkir hefðu framið þjóðarmorð á Armenum. Mikið var í húfi, en mestöll þjónusta við bandaríska flugherinn í Íraksstríðinu fór fram á tyrkneskri grund. Sum lönd banna með lögum að afneita þjóðarmorði Tyrkja á Armenum. Í tyrkneskum lögum er hins vegar bannað að nefna orðið þjóðarmorð í samhenginu. Slíkt getur kallað refsingu og jafnvel dauða yfir menn. Má þar minnast morðsins á Hrant Dink, tyrkneskum blaðamanni af armenskum ættum árið tvö þúsund og sjö, sem notaði hugtakið hiklaust í skrifum sínum um þetta efni. En meðan Tyrkir afneita þjóðarmorðinu er víða litið á atburðina fyrir hundrað árum sem fyrsta þjóðarmorðið. Þau áttu eftir að verða fleiri á tuttugustu öldinni, öld öfganna eins og breski sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm kallaði hana.

 

jongk's picture
Jón Guðni Kristjánsson
Fréttastofa RÚV