Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fyrsta skóflustunga 2018/2019

17.07.2017 - 17:37
Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir / Þórgunnur Oddsdóttir
Fyrsta skóflustunga að nýjum meðferðarkjarna Landspítalans verður líklega tekin á vetrarmánuðum 2018 eða snemma árs 2019, segir Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri nýs Landspítala.

Meðferðarkjarninn – sjúkrahúsið sjálft – verður um 60.000 fermetrar. „Það er verið að sameina meginstarfsemi Landspítalans í einni byggingu. Þarna er kjarninn, talað um hjartað sjálft í starfseminni. Um leið er verið að sameina bráðamóttöku spítalans á einum stað að mestu og síðan koma legurými fyrir um 200 sjúklinga og það er allt saman einbýli,“ sagði Gunnar í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag.

300 þingmenn og sex ríkisstjórnir

Bygging nýs Landspítala hefur verið í pípunum um langa hríð – fleiri ár. Gunnar segir að vinnan nú sé í raun „þriðja startið í verkefninu“. Fyrst voru spítalarnir á höfuðborgarsvæðinu sameinaðir í einn spítala. Síðan var ákveðið að ráðstafa fjármunum frá sölu Símans í verkefnið. Hrunið setti hins vegar stórt strik í reikninginn.

Gunnar segir það svolítið sérstakt að tala um óeiningu varðandi byggingu nýs Landspítala.

„Allt sem er afgreitt gagnvart verkefninu á Alþingi, það er samhljóða afgreitt það hefur enginn bókað á móti því neitt inn á þingi. Og það hafa komið að þessu hátt í 300 þingmenn og núna síðast á þessu skrefi einar 6 ríkisstjórnir og það er alltaf samhugur í verkinu.“ Segir Gunnar. En þrátt fyrir að Alþingi hafi viljað setja verkefnið á fullt árið 2010, þá vanti alltaf peninga í það. Núverandi ríkisstjórn hafi hins vegar tekið af skarið. Til standi að ljúka byggingu meðferðarkjarnans 2023.

Mynd með færslu
Framkvæmdir við sjúkrahótel við Landspítalann. Mynd: RÚV

Sjúkrahúsið verður við Hringbraut

Þótt langvarandi deilur hafi verið um staðsetningu nýs Landspítala, segir Gunnar ljóst að hann verði við Hringbraut.„Það liggur fyrir frá 2010 að Alþingi samþykkir með sérstökum lögum að það eigi að byggja þetta á Hringbraut.“ Þá sé búið að leggja mikið fé í nýjan Landspítala við Hringbraut. „Það er komið á fulla ferð. Við erum að fara að klára fyrsta húsið, sjúkrahótelin á næstu mánuðum.

Mynd með færslu
 Mynd: Nýr Landspítali

Minnstu húsin kosta minnst

Meðferðarkjarninn – hjartað í sjúkrahúsinu – kostar um 30 milljarða samkvæmt áætlunum, segir Gunnar. Nú er verið að byggja hús sem kostar um tvo milljarða. Því næst verður byggt rannsóknarhús sem verður um 15 þúsund fermetrar og kostar um níu milljarða króna.

„Auðvitað er það þannig að síðan verður kostnaðurinn til þegar búið er að bjóða út ýmsa verkþætti og taka ýmsum tilboðum en í heildinni er þetta auðvitað verkefni sem er að hlaupa upp á tugi milljarða.“

Fyrsta skóflustungan eftir hálft annað ár

Gunnar býst við að fyrsta skóflustunga að nýjum meðferðarkjarna verði tekin á vetrarmánuðum 2018 eða í upphafi árs 2019.

„Það fer þó eftir því hvernig við lítum á gatnagerðina en ég á von á því að hún hefjist næsta vor því það er hugmyndin okkar að bjóða út verkin og byrja að breyta götunum. Gamla Hringbrautin hún hverfur (…) þannig að svæðið fer á flot næsta vor,“ segir Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóra nýs Landspítala.

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV